„Á enn langt í land með að ná sér“

„Hún á langt í land enn með að ná sér, bæði líkamlega og andlega. Það stórsér ennþá á henni, aðallega í andliti. Það á einnig eftir að taka langan tíma að vinna úr sálarlífinu, “ segir Hrönn Óskarsdóttir, systir stúlkunnar sem numin var á brott í liðinni viku og barin til óbóta í Heiðmörk. Að sögn Hrannar mun systir hennar byrja í áfallahjálp hjá áfallateymi Landspítalans síðar í vikunni. 

Að sögn Hrannar fór fjölskyldan fljótlega eftir árásina út úr bænum, en kom heim aftur í gærkvöldi. Þá mættu allir vinir stúlkunnar í heimsókn með blóm og bangsa. Segir Hrönn að systur hennar hafi þótt afar vænt um að finna þann hlýhug og stuðning.  

„Við höfum fundið fyrir miklum stuðningi bæði frá þeim sem þekkja okkur en líka frá þjóðinni, sem skiptir hana öllu máli. Síminn hefur ekki stoppað. Fólk er líka mjög reitt yfir því að svona geti gerst. Það geta allir samsamað sig með þessu því það eru unglingar í nær öllum stórfjölskyldum. Margir eru reiðir yfir því að hægt sé að vera laminn í köku ef þú gerir eða segir eitthvað sem einhverjum mislíkar,“ segir Hrönn og tekur fram að mikilvægt verði að dómarnir yfir árásarstúlkunum sendi skýr skilaboð um að svona hegðun verði ekki liðin í samfélaginu. 

Fram kom í Morgunblaðinu um helgina að unglingsstúlkurnar sem réðust á systur Hrannar munu að öllum líkindum sleppa með frestun ákæru eða skilorðsbundinn dóm, þó þær geti verið ákærðar fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, fjárkúgun og hótanir. 

„Almenningur þarf að verða sér meðvitaður um að þetta er í gangi hjá unglingum í dag. Við fullorðna fólkið getum ekki stungið hausnum í sandinn og látið eins og þetta sé ekki að gerast. Það er í okkar valdi að stoppa þetta. Þess vegna þarf að koma dómur sem sendir skýr skilaboð um að þessi mál séu tekin alvarlega og að þjóðfélagið sætti sig ekki við þetta. Við aðstandendur munum aldrei sætta okkur við einhvern málamyndadóm,“  segir Hrönn og bætir við:  „Systir mín var heppin, hún sleppur án varanlegra líkamlegra örkumla. En verði ekki send skýr skilaboð þá heldur þessi hegðun áfram og þá kemur að því að líf einhvers unglings á eftir að eyðileggjast. Við getum ekki bara látið eins og ekkert sé. Við þurfum að stoppa þessa hegðun,“ segir Hrönn og tekur fram að fjölskyldan hafi engan áhuga á skaðabótum. 

Spurð hvort fjölskyldan hafi heyrt eitthvað frá árásarstúlkunum sjálfum eða foreldrum þeirra svarar Hrönn því til að sumir foreldrar hafi haft samband. „Þeir foreldrar sem hafa haft samband við okkur eru miður sín yfir því hvað unglingar þeirra gerðu,“ segir Hrönn og tekur fram að í sumur tilvikum hafi hegðun árásarstúlknanna ekki komið á óvart þar sem þær hafi sumar verið í slæmum málum fyrir. 

Aðspurð segir Hrönn enn óvíst hvenær systir hennar muni mæta aftur í skólann. „Hún er að klára 10. bekk grunnskólans, þannig að hún ætti að fara að byrja í prófum en ég veit ekki hvað hún á eftir að treysta sér í. Það verður eitthvað að bíða betri tíma,“ segir Hrönn. Tekur hún fram að ekki sé hægt að senda stúlkuna í núverandi ástandi í lokapróf sem hafa úrslitaáhrif á það inn í hvaða framhaldsskóla hún komist og hefur þannig afgerandi áhrif á næstu fjögur árin í lífi hennar.

Frá Heiðmörk.
Frá Heiðmörk. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka