„Á enn langt í land með að ná sér“

„Hún á langt í land enn með að ná sér, bæði lík­am­lega og and­lega. Það stór­sér ennþá á henni, aðallega í and­liti. Það á einnig eft­ir að taka lang­an tíma að vinna úr sál­ar­líf­inu, “ seg­ir Hrönn Óskars­dótt­ir, syst­ir stúlk­unn­ar sem num­in var á brott í liðinni viku og bar­in til óbóta í Heiðmörk. Að sögn Hrann­ar mun syst­ir henn­ar byrja í áfalla­hjálp hjá áfallat­eymi Land­spít­al­ans síðar í vik­unni. 

Að sögn Hrann­ar fór fjöl­skyld­an fljót­lega eft­ir árás­ina út úr bæn­um, en kom heim aft­ur í gær­kvöldi. Þá mættu all­ir vin­ir stúlk­unn­ar í heim­sókn með blóm og bangsa. Seg­ir Hrönn að syst­ur henn­ar hafi þótt afar vænt um að finna þann hlýhug og stuðning.  

„Við höf­um fundið fyr­ir mikl­um stuðningi bæði frá þeim sem þekkja okk­ur en líka frá þjóðinni, sem skipt­ir hana öllu máli. Sím­inn hef­ur ekki stoppað. Fólk er líka mjög reitt yfir því að svona geti gerst. Það geta all­ir sam­samað sig með þessu því það eru ung­ling­ar í nær öll­um stór­fjöl­skyld­um. Marg­ir eru reiðir yfir því að hægt sé að vera lam­inn í köku ef þú ger­ir eða seg­ir eitt­hvað sem ein­hverj­um mis­lík­ar,“ seg­ir Hrönn og tek­ur fram að mik­il­vægt verði að dóm­arn­ir yfir árás­ar­stúlk­un­um sendi skýr skila­boð um að svona hegðun verði ekki liðin í sam­fé­lag­inu. 

Fram kom í Morg­un­blaðinu um helg­ina að ung­lings­stúlk­urn­ar sem réðust á syst­ur Hrann­ar munu að öll­um lík­ind­um sleppa með frest­un ákæru eða skil­orðsbund­inn dóm, þó þær geti verið ákærðar fyr­ir frels­is­svipt­ingu, lík­ams­árás, fjár­kúg­un og hót­an­ir. 

„Al­menn­ing­ur þarf að verða sér meðvitaður um að þetta er í gangi hjá ung­ling­um í dag. Við full­orðna fólkið get­um ekki stungið hausn­um í sand­inn og látið eins og þetta sé ekki að ger­ast. Það er í okk­ar valdi að stoppa þetta. Þess vegna þarf að koma dóm­ur sem send­ir skýr skila­boð um að þessi mál séu tek­in al­var­lega og að þjóðfé­lagið sætti sig ekki við þetta. Við aðstand­end­ur mun­um aldrei sætta okk­ur við ein­hvern mála­mynda­dóm,“  seg­ir Hrönn og bæt­ir við:  „Syst­ir mín var hepp­in, hún slepp­ur án var­an­legra lík­am­legra örkumla. En verði ekki send skýr skila­boð þá held­ur þessi hegðun áfram og þá kem­ur að því að líf ein­hvers ung­lings á eft­ir að eyðileggj­ast. Við get­um ekki bara látið eins og ekk­ert sé. Við þurf­um að stoppa þessa hegðun,“ seg­ir Hrönn og tek­ur fram að fjöl­skyld­an hafi eng­an áhuga á skaðabót­um. 

Spurð hvort fjöl­skyld­an hafi heyrt eitt­hvað frá árás­ar­stúlk­un­um sjálf­um eða for­eldr­um þeirra svar­ar Hrönn því til að sum­ir for­eldr­ar hafi haft sam­band. „Þeir for­eldr­ar sem hafa haft sam­band við okk­ur eru miður sín yfir því hvað ung­ling­ar þeirra gerðu,“ seg­ir Hrönn og tek­ur fram að í sum­ur til­vik­um hafi hegðun árás­ar­stúlkn­anna ekki komið á óvart þar sem þær hafi sum­ar verið í slæm­um mál­um fyr­ir. 

Aðspurð seg­ir Hrönn enn óvíst hvenær syst­ir henn­ar muni mæta aft­ur í skól­ann. „Hún er að klára 10. bekk grunn­skól­ans, þannig að hún ætti að fara að byrja í próf­um en ég veit ekki hvað hún á eft­ir að treysta sér í. Það verður eitt­hvað að bíða betri tíma,“ seg­ir Hrönn. Tek­ur hún fram að ekki sé hægt að senda stúlk­una í nú­ver­andi ástandi í loka­próf sem hafa úr­slita­áhrif á það inn í hvaða fram­halds­skóla hún kom­ist og hef­ur þannig af­ger­andi áhrif á næstu fjög­ur árin í lífi henn­ar.

Frá Heiðmörk.
Frá Heiðmörk. Eggert Jó­hann­es­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert