Magnús Þorsteinsson gjaldþrota

Magnús Þorsteinsson
Magnús Þorsteinsson mbl.is

Bú Magnúsar Þorsteinssonar hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Straums-Burðaráss fjárfestingabanka. Krafa Straums á hendur Magnúsi nemur um milljarði króna.

Magnús flutti nýlega lögheimili sitt til Rússlands en dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra taldi að þar sem krafa um gjaldþrotaskipti kom fram áður en Magnús breytti um heimili, væri Magnús ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla.

Magnús Þorsteinsson var umsvifamikill fjárfestir en hann keypti meðal annars Landsbankann á sínum tíma ásamt Björgólfsfeðgum. Þá var Magnús stjórnarformaður og aðaleigandi Avion Group, sem m.a. keypti Eimskipafélagið af Burðarási.

Milljarður að láni

Krafa Straums-Burðaráss um gjaldþrotaskiptin er sett fram vegna  láns til Fjárfestinga ehf., eignarhaldsfélags Magnúsar, upp á rúman milljarð sem veitt var í október 2005. Lánið átti að endurgreiða í einu lagi tveimur árum síðar eða 10. október 2007. Straumur-Burðarás fékk í kjölfar lánveitingarinnar að handveði bréf í Icelandic Group en þar sem verðmæti bréfanna nægði ekki, kallaði Straumur-Burðarás eftir auknum tryggingum. Veðkall var gert í febrúar 2006 og var þá 75 milljóna króna reiðufjárinnistæða sett að handveði.

Þá var skilmálum upphaflega lánsins breytt, Magnús Þorsteinsson gerðist ábyrgðaraðili og gjalddagi var færður aftur til 10. október 2008. Með yfirlýsingu  sem undirrituð er 10. janúar 2008 tókst Magnús Þorsteinsson á hendur sjálfskuldarábyrgð  á greiðslu lánsins. Ábyrgð Magnúsar er þó takmörkuð við 930 milljónir króna, auk 20% ársvaxta frá 10. janúar 2008 til greiðsludags.

Fyrirsláttur og tafir

Í lok ágúst 2008 var enn gert veðkall og Straumur-Burðarás fór fram á frekari tryggingar. Á þeim tíma var Icelandic Group afskráð úr Kauphöll og enginn skipulegur verðbréfamarkaður með hlutabréf í félaginu. Straumur-Burðarás mátu það svo að augljóst væri að markaðsverð veðsettra bréfa í Icelandic Group væri langt frá því að uppfylla skilyrði um tryggingamörk.

Lánið var gjaldfellt 2. september 2008 og í kjölfarið höfðað innheimtumál á hendur Magnúsi.

Lögmaður Straums segir Magnús skulda 930 milljónir, auk vaxta, þar sem hann hafi gengist í ábyrgð fyrir skuld eigin eignarhaldsfélags. Lögmaður Magnúsar telur hins vegar sjálfskuldarábyrgðina ógilda.

Í gjaldþrotaúrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra segir að Straumur-Burðarás telji  ljóst að málsúrslit úr innheimtumálinu, sem höfðað var í september 2008, mun dragast verulega vegna málsvarna Magnúsar, sem að mati Straums-Burðaráss einkennist af „fyrirslætti og viðleitni til að tefja málið.“

Gat ekki bent á eignir

Straumur-Burðarás krafðist þess 6. febrúar sl. að eignir Magnúsar yrðu kyrrsettar til tryggingar skuldinni. Gerðinni lauk án árangurs 20. febrúar sl. þar sem Magnús gat ekki bent á eignir til tryggingar. Straumur-Burðarás telur ekkert gefa til kynna að Magnús Þorsteinsson sé fær um að standa í skilum innan skamms tíma.

Lögmaður Magnúsar telur að Magnús sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum. Magnús sé ekki í persónulegum vanskilum og hafi staðið lánardrottnum sínum skil á þeim skuldbindingum sem hann hafi gengið í og hafi komið í gjalddaga og Magnús telji sig fullfæran um að standa skil á skuldbindingum sínum um fyrirsjáanlega framtíð.

Lögmaður Magnúsar bendir á að Magnús stundi umfangsmikla viðskiptastarfsemi í Rússlandi. Kyrrsetningargerðin gefi því ranga mynd af fjárhag Magnúsar. Þá telur lögmaður Magnúsar að þar sem Magnús eigi ekki lögheimili á Íslandi og sé ekki undanþeginn lögsögu dómstóla í öðrum ríkjum verði ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti á búi Magnúsar ekki beitt.

Ekki undanþegin íslenskri lögsögu

Samkvæmt vottorði þjóðskrár breytti Magnús, sem áður bjó á Akureyri, um heimili 7. apríl 2009 og á nú heimili í Rússlandi. Krafa um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi hins vegar 2. mars 2009 eða rúmum mánuði áður en Magnús flutti lögheimili sitt. Dómari mat það því svo að Magnús væri ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla.

Magnús hefur nú tvær vikur til að skjóta úrskurði héraðsdóms til hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert