Magnús Þorsteinsson gjaldþrota

Magnús Þorsteinsson
Magnús Þorsteinsson mbl.is

Bú Magnús­ar Þor­steins­son­ar hef­ur verið tekið til gjaldþrota­skipta að kröfu Straums-Burðaráss fjár­fest­inga­banka. Krafa Straums á hend­ur Magnúsi nem­ur um millj­arði króna.

Magnús flutti ný­lega lög­heim­ili sitt til Rúss­lands en dóm­ari við héraðsdóm Norður­lands eystra taldi að þar sem krafa um gjaldþrota­skipti kom fram áður en Magnús breytti um heim­ili, væri Magnús ekki und­anþeg­inn lög­sögu ís­lenskra dóm­stóla.

Magnús Þor­steins­son var um­svifa­mik­ill fjár­fest­ir en hann keypti meðal ann­ars Lands­bank­ann á sín­um tíma ásamt Björgólfs­feðgum. Þá var Magnús stjórn­ar­formaður og aðal­eig­andi Avi­on Group, sem m.a. keypti Eim­skipa­fé­lagið af Burðarási.

Millj­arður að láni

Krafa Straums-Burðaráss um gjaldþrota­skipt­in er sett fram vegna  láns til Fjár­fest­inga ehf., eign­ar­halds­fé­lags Magnús­ar, upp á rúm­an millj­arð sem veitt var í októ­ber 2005. Lánið átti að end­ur­greiða í einu lagi tveim­ur árum síðar eða 10. októ­ber 2007. Straum­ur-Burðarás fékk í kjöl­far lán­veit­ing­ar­inn­ar að hand­veði bréf í Icelandic Group en þar sem verðmæti bréf­anna nægði ekki, kallaði Straum­ur-Burðarás eft­ir aukn­um trygg­ing­um. Veðkall var gert í fe­brú­ar 2006 og var þá 75 millj­óna króna reiðufjár­inni­stæða sett að hand­veði.

Þá var skil­mál­um upp­haf­lega láns­ins breytt, Magnús Þor­steins­son gerðist ábyrgðaraðili og gjald­dagi var færður aft­ur til 10. októ­ber 2008. Með yf­ir­lýs­ingu  sem und­ir­rituð er 10. janú­ar 2008 tókst Magnús Þor­steins­son á hend­ur sjálf­skuld­arábyrgð  á greiðslu láns­ins. Ábyrgð Magnús­ar er þó tak­mörkuð við 930 millj­ón­ir króna, auk 20% ár­s­vaxta frá 10. janú­ar 2008 til greiðslu­dags.

Fyr­ir­slátt­ur og taf­ir

Í lok ág­úst 2008 var enn gert veðkall og Straum­ur-Burðarás fór fram á frek­ari trygg­ing­ar. Á þeim tíma var Icelandic Group af­skráð úr Kaup­höll og eng­inn skipu­leg­ur verðbréfa­markaður með hluta­bréf í fé­lag­inu. Straum­ur-Burðarás mátu það svo að aug­ljóst væri að markaðsverð veðsettra bréfa í Icelandic Group væri langt frá því að upp­fylla skil­yrði um trygg­inga­mörk.

Lánið var gjald­fellt 2. sept­em­ber 2008 og í kjöl­farið höfðað inn­heimtu­mál á hend­ur Magnúsi.

Lögmaður Straums seg­ir Magnús skulda 930 millj­ón­ir, auk vaxta, þar sem hann hafi geng­ist í ábyrgð fyr­ir skuld eig­in eign­ar­halds­fé­lags. Lögmaður Magnús­ar tel­ur hins veg­ar sjálf­skuld­arábyrgðina ógilda.

Í gjaldþrota­úrsk­urði héraðsdóms Norður­lands eystra seg­ir að Straum­ur-Burðarás telji  ljóst að máls­úr­slit úr inn­heimtu­mál­inu, sem höfðað var í sept­em­ber 2008, mun drag­ast veru­lega vegna mál­svarna Magnús­ar, sem að mati Straums-Burðaráss ein­kenn­ist af „fyr­ir­slætti og viðleitni til að tefja málið.“

Gat ekki bent á eign­ir

Straum­ur-Burðarás krafðist þess 6. fe­brú­ar sl. að eign­ir Magnús­ar yrðu kyrr­sett­ar til trygg­ing­ar skuld­inni. Gerðinni lauk án ár­ang­urs 20. fe­brú­ar sl. þar sem Magnús gat ekki bent á eign­ir til trygg­ing­ar. Straum­ur-Burðarás tel­ur ekk­ert gefa til kynna að Magnús Þor­steins­son sé fær um að standa í skil­um inn­an skamms tíma.

Lögmaður Magnús­ar tel­ur að Magnús sé fær um að standa full skil á skuld­bind­ing­um sín­um. Magnús sé ekki í per­sónu­leg­um van­skil­um og hafi staðið lán­ar­drottn­um sín­um skil á þeim skuld­bind­ing­um sem hann hafi gengið í og hafi komið í gjald­daga og Magnús telji sig full­fær­an um að standa skil á skuld­bind­ing­um sín­um um fyr­ir­sjá­an­lega framtíð.

Lögmaður Magnús­ar bend­ir á að Magnús stundi um­fangs­mikla viðskipt­a­starf­semi í Rússlandi. Kyrr­setn­ing­ar­gerðin gefi því ranga mynd af fjár­hag Magnús­ar. Þá tel­ur lögmaður Magnús­ar að þar sem Magnús eigi ekki lög­heim­ili á Íslandi og sé ekki und­anþeg­inn lög­sögu dóm­stóla í öðrum ríkj­um verði ákvæðum laga um gjaldþrota­skipti á búi Magnús­ar ekki beitt.

Ekki und­anþegin ís­lenskri lög­sögu

Sam­kvæmt vott­orði þjóðskrár breytti Magnús, sem áður bjó á Ak­ur­eyri, um heim­ili 7. apríl 2009 og á nú heim­ili í Rússlandi. Krafa um gjaldþrota­skipti barst héraðsdómi hins veg­ar 2. mars 2009 eða rúm­um mánuði áður en Magnús flutti lög­heim­ili sitt. Dóm­ari mat það því svo að Magnús væri ekki und­anþeg­inn lög­sögu ís­lenskra dóm­stóla.

Magnús hef­ur nú tvær vik­ur til að skjóta úr­sk­urði héraðsdóms til hæsta­rétt­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert