Blóðbankinn hefur í dag haft samband við einstaklinga sem koma reglulega að gefa blóð þar sem lítið er til af blóði hjá bankanum. Ekki er um neyðarástand að ræða en talvert hefur gengið á birgðir blóðbankans að undanförnu. Er fólk í öllum blóðflokkum hvatt til þess að koma að gefa blóð en þörfin er mest á blóði í O-flokkum, bæði O+ og O-.
Samkvæmt upplýsingum frá Blóðbankanum er það ekkert eitt sem skýrir skortinn nú heldur bæði það að nokkrir frídagar að undanförnu gera það að verkum að færri hafa gefið blóð og talsvert hefur verið um veikindi og slys.