Þann 15. maí taka gildi ný lög um tímabundna greiðsluaðlögun
fasteignaveðkrafna. Með lögunum getur eigandi íbúðarhúsnæðis leitað
eftir greiðsluaðlögun vegna skulda sem tryggðar eru með veði í húsnæði
hans ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær um
að standa í fullum skilum á greiðslum veðskulda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðherra vegna misvísandi fréttaflutnings um útgáfu reglugerðar í tengslum við greiðsluaðlögun.
„Miðað er við að um sé að ræða húsnæði sem telst hóflegt miðað við þarfir skuldara og fjölskyldu hans. Einstaklingur leitar greiðsluaðlögunar með skriflegri beiðni til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem hann á lögheimili. Taki héraðsdómari beiðnina til greina skal hann skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni.
Með lögum nr. 24/2009 um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem tóku gildi 1. apríl sl., var einstaklingum gert kleift að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við kröfuhafa sína með aðstoð umsjónarmanns. Þau lög taka til annarra krafna en veðskulda. Reglugerð nr. 335/2009, sem sett var á grundvelli laganna, var gefin út sama dag. Þar er Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna falið að annast endurgjaldslausa aðstoð við gerð beiðna um greiðsluaðlögun. Nú þegar hafa nokkrir einstaklingar leitað eftir þessu úrræði hjá héraðsdómstólum.
Það er því ekki rétt sem haldið hefur verið fram að greiðsluaðlögun sé ekki raunhæfur valkostur vegna þess að eftir eigi að setja reglugerð sem kveði nánar á um framkvæmd laganna. Annars vegar er um að ræða úrræði sem komið er til framkvæmda, þ.e. greiðsluaðlögunarúrræði vegna annarra krafna en veðskulda, og hins vegar lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna sem taka gildi 15. maí nk. og geta þau lög komið að fullu til framkvæmda án þess að sett sé reglugerð á grundvelli þeirra," að því er segir í tilkynningu.