Öllum sagt upp hjá Nesprýði

Nesprýði hefur sérhæft sig í margskonar jarðvinnu en ekki síst …
Nesprýði hefur sérhæft sig í margskonar jarðvinnu en ekki síst hellulögnum og skrúðgarðyrkju. Mbl.is/Helgi Bjarnason

Verktakafyrirtækið Nesprýði í Reykjanesbæ sagði upp öll starfsmönnum sínum síðasta fimmtudag. Starfsmennirnir voru fimmtíu talsins. Þetta staðfestir Jón B. Olsen, framkvæmdastjóri Nesprýði.

Hann segir fyrirtækið ekki á leið í gjaldþrot, en ekkert annað hafi verið í stöðunni en að segja starfsmönnum upp, vegna mikils verkefnaskorts. „Við viljum geta borgað fólki laun og uppsagnarfrest. Við viljum geta borgað af okkar tækjum. Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ segir Jón. Hann segist ekki vilja lenda í þeirri stöðu að halda starfsfólki í vinnu en geta ekki borgað út og enda í vanskilum við starfsfólk sitt.

Hann segir að flestir starfsmennirnir eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti, en aðeins nokkrir eigi rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti. Fresturinn verði borgaður út.

Aðspurður hvað olli því að þessi ákvörðun var tekin á fimmtudaginn, daginn fyrir baráttudag verkalýðsins, segir Jón að reynt hafi verið að þrauka fram á sumarið til að sjá hvort ástandið tæki ekki við sér. Svo hafi hins vegar ekki orðið og nú séu slík undirboð í gangi á þeim fáu verkefnum sem bjóðist að ekki sé hægt að keppa við þau.

Áttatíu sumarstörf í Reykjanesbæ horfin

Hann segir algengt að boðið sé 40-50% undir kostnaðaráætlun, en við slík undirboð sé ekki hægt að keppa. Hann vísar í nýlegt útboð á jarðvinnu við leikskóla við Úlfarsbraut. Tilboð þess sem hreppti verkið var 49,67% af kostnaðaráætlun. „Við ætlum ekki að taka þátt í þessu. Það endar bara á einn veg,“ segir Jón.

Nesprýði hefur verið með um 150 manns í vinnu að sumarlagi allt frá aldamótum og hefur verið stór vinnuveitandi í sumarstörfum fyrir ungt fólk í Reykjanesbæ. „Á þessum tíma undanfarin ár hef ég verið að ráða 70 til 80 unglinga í sumarstörf. Í dag hef ég ekki opnað möppuna, því ég þarf í mesta lagi fjóra,“ segir Jón. Skarð er því fyrir skildi í atvinnuframboði fyrir skólafólk í Reykjanesbæ í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert