Umhverfisvæn orka á bíla er næsta stóra viðfangsefnið í orkumálum landsins að mati Orkuveitu Reykjavíkur. Nú fyrir helgi veitti Orkuveitan styrki til rafvæðingar samgangna á Íslandi úr Umhverfis- og orkurannsóknarsjóði og voru rannsóknarverkefni um rafbíla þar veigamikil.
Verið er að hleypa af stokkunum tveimur umfangsmiklum verkefnum um rafbíla undir forystu vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Það er annars vegar verkefni dr. Páls Jenssonar um rafakstur og hins vegar rannsókn dr. Hlyns Stefánssonar um rafbílavæðingu í Reykjavík.
OR líkir væntanlegri rafbílavæðingu við gerbyltingu sem varð í húshitun á síðustu öld, þegar olíu- og kolakyndingu var útrýmt. Fjöldaframleiddir rafbílar eru væntanlegir á göturnar innan nokkurra missera og geta Íslendingar bundið miklar vonir við þá þróun að mati OR. Stærsta einstaka styrkinn í ár hlaut verkefni Carbfix, í samstarfi HÍ, OR, Columbia-háskóla og Rannsóknarráðs franska ríkisins, sem miðast að því að binda koltvísýring í basalthraunlögunum á Hellisheiði. Alls nema styrkirnir 92,5 milljónum króna.