Verktakafyrirtækið Klæðning ehf. hefur rift öllum verksamningum sínum við Orkuveitu Reykjavíkur, vegna greiðsluerfiðleika Orkuveitunnar, að því er segir í tilkynningu frá Klæðningu. Segir þar að OR hafi tilkynnt Klæðningu með mjög skömmum fyrirvara að hún gæti ekki greitt þegar samþykkta reikninga, en uppgefnar ástæður hafi verið tilbúningur.
Aðspurður hvað átt sé við með tilbúningi segir Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar, að Orkuveitan hafi tilkynnt að farið hefði verið yfir ársgamla reikninga og niðurstaðan væri sú að Klæðningu hefði verið ofgreitt á þeim tíma. Frekari greiðslur vegna yfirstandandi samninga yrðu því frystar. „Þetta er tilbúningur,“ segir Sigþór.
Samningarnir þrír sem Klæðning hefur rift eru í fyrsta lagi um gerð hitaveituleiðslu frá Hellisheiðarvirkjun að vatnstönkunum á Reynisvatnsheiði. Í öðru lagi um byggingu dæluhúss þar og í þriðja lagi um gerð safnæða, sem liggja frá borholum til skiljuhúsa og stöðvarhúss Hellisheiðarvirkjunar.
Aðspurður segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, að þessi verk hafi nú þegar verið stopp í nokkra daga, en óljóst sé á þessu stigi málsins hver áhrifin af þessari riftun samninga verði.
Fara í skaðabótamál við Orkuveituna
Í bréfinu sem Klæðning hefur nú sent OR segir að ljóst sé að vanefndir af hálfu Orkuveitunnar hafi haft skaðleg áhrif á starfsemi Klæðningar, sem muni höfða bótamál á hendur Orkuveitunni. Sigþór Ari segir alla framkomu OR hafa verið ótrúverðuga í málinu, fyrst hafi verið talað um allt að 135 milljóna króna ofgreiðslur en sú tala svo farið lækkandi niður í 100 milljónir.
Klæðning hafi fengið eitt blað með fullyrðingum í þessa veru, en svarað fyrir sig með 106 blaðsíðna greinargerð um málið. Búist hafi verið greinargerð frá OR um málið nú á föstudaginn en hún hafi ekki borist. Því hafi verið ákveðið að rifta samningunum og höfða skaðabótamál.
Eiríkur Hjálmarsson hjá Orkuveitunni segir að ágreiningur hafi verið um uppgjör reikninga um nokkra hríð og ásakanir af hálfu Klæðningar á hendur Orkuveitunnar séu ekki nýjar af nálinni. ,,Þær komu fram fyrir einhverjum mánuðum fyrst og þeim hefur öllum verið svarað með málefnalegum hætti," segir Eiríkur. Hann segir Orkuveituna telja réttinn liggja sín megin, ef svo fari að málið endi fyrir dómstólum. ,,Við teljum okkur hafa staðið við okkar skyldur í öllum þessum samningum."
Fyrir viku síðan var sagt frá því í Morgunblaðinu að fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hefði leyst til sín fjölmargar vinnuvélar sem Klæðning hafði á lánum frá fyrirtækinu, en það gerðist í kjölfar þess að Orkuveitan ákvað að frysta greiðslurnar til Klæðningar. Þá hefur 90 starfsmönnum verið sagt upp í þessum hræringum.