Skoðar málskot til Hæstaréttar

Magnús Þorsteinsson, var stjórnarformaður og aðaleigandi Avion Group.
Magnús Þorsteinsson, var stjórnarformaður og aðaleigandi Avion Group.

„Það er verið að skoða málið, en líkur eru á að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar,“ segir Benedikt Ólafsson lögmaður Magnúsar Þorsteinssonar fjárfestis.

Bú Magnúsar var tekið til gjaldþrotaskipta í dag. Dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra taldi að þar sem krafa um gjaldþrotaskipti kom fram áður en Magnús flutti lögheimili sitt til Rússlands, bæri að ljúka málinu fyrir íslenskum dómstólum.

Samkvæmt vottorði þjóðskrár breytti Magnús, sem áður bjó á Akureyri, um heimili 7. apríl 2009 og á nú heimili í Rússlandi. Krafa um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi hins vegar 2. mars 2009 eða rúmum mánuði áður en Magnús flutti lögheimili sitt. Dómari mat það því svo að Magnús væri ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla.

Það var Straumur-Burðarás fjárfestingabanki sem fór fram á gjaldþrotaskipti yfir búi Magnúsar vegna skuldar og sjálfsábyrgðar Magnúsar að fjárhæð 930 milljónir króna, auk vaxta. Lögmaður Magnúsar telur hins vegar sjálfskuldarábyrgðina ógilda.

Að öllum líkindum kemur í hlut Hæstaréttar að skera úr þessum ágreiningsefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert