Tælensku hjónin Jakkapong Srichakan og Phenporn Theehakde sem urðu milljónamæringar eftir að hafa fengið 65 milljónir í lottó um miðjan ágúst í fyrra segjast ekki hafa tapað krónu á bankahruninu þar sem peningarnir þeirra fóru inn á íslenska bankabók en ekki í peningamarkaðssjóði eða hlutabréf.
Phenporn segist hafa orðið hrædd þegar bankarnir hrundu en hún hafi rætt margsinnis við starfsmenn bankans og þeir hafi sagt henni allt sé í góðu lagi. Hjónin eru nú að gróðursetja ávaxtatré á landareign sem þau keyptu í Tælandi en að öðru leyti hafa þau ekki hreyft við peningunum.
Phenporn segir að þau ætli að bíða í eitt til tvö ár með frekari fjárfestingar en þá hyggjast þau byggja hús á nýja landinu. Í millitíðinni ætla þau að dvelja á Íslandi og starfa við kjúklingabú enda líkar þeim ekki að sitja auðum höndum.