Gæti þurft umboðsmann skuldara

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir nauðsynlegt að rannsaka hvaða aðferðum bankarnir eru að beita við að taka á vanda fyrirtækja sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Samræma þurfi þær aðgerðir, gera þær gagnsærri og skoða hvort þörf sé á miðlægum umboðsmanni skuldara.

Þetta kemur fram í minnisblaði Gylfa, sem birt var á vefsíðu viðskiptaráðuneytisins í dag, í kafla þar sem hann fjallar um svokallað eignaumsýslufélag og úrvinnslu á skuldastöðu fyrirtækja. Í minnisblaðinu fer Gylfi yfir sviðið, í tíu liðum, og lýsir sýn sinni á endurreisn fjármálakerfisins, eins og hún stendur í dag.

Um gjaldeyrishöftin segir hann að til þess að hægt verði að losa um þau þurfi að leysa vanda þeirra aðila sem eiga fjármagn í íslenskum krónum, sem þeir gjarnan vilja selja. „Nokkrir einkaaðilar hafa sett fram leiðir til að leysa þennan vanda með eignaskiptum eða skuldabréfaútboðum. Er lausn á þessu verkefni forsenda þess að unnt sé að losa um gjaldeyrishöftin,“ segir í minnisblaðinu.

Skekkja í efnahagsreikningi nýju bankanna

Einnig segir Gylfi mikilvægt að nýju bankarnir séu með gjaldeyrisjöfnuð í lagi. Lýsir hann þeirri skekkju sem verður í efnahagsreikningi nýju bankanna, vegna þess að meira var fært fyrir frá gömlu bönkunum af gengistryggðum eignum , heldur en gengistryggðum skuldum. „Leiðir þetta til nokkurrar gengisáhættu bankanna og til hugsanlegs taps á rekstri þeirra vegna mismunar á vöxtum á þessum eignum og á innstæðum.“

Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem fjallað hefur um þennan vanda, muni væntanlega skila af sér niðurstöðum í þessari viku. Ekki sé hægt að ganga frá fjármögnun nýju bankanna, né samningum við kröfuhafa gömlu bankanna, fyrr en lausn á þessum vanda liggi fyrir. Áætlar hann að það geti orðið í júní næstkomandi.

Minnisblaðið í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert