Íslendingur handtekinn í Brasilíu

Kókaín.
Kókaín. mbl.is/Júlíus

24 ára gamall Íslendingur var nýlega handtekinn á flugvelli í landinu á leiðinni til Spánar með tæp sex kíló af hreinu kókaíni í fórum sínum. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að maðurinn eigi yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.

Útvarpið vitnaði til brasilískra fjölmiðla um að Íslendingurinn hafi verið handtekinn á föstudagskvöldið á alþjóðaflugvellinum í Recife norðanlega í Brasilíu. Maðurinn var þá að stíga um borð í flugvél á leiðinni til borgarinnar Malága á Spáni. Við leit í farangri hans fundust 5,7 kíló af mjög hreinu kókaíni, sem búið var að koma fyrir í smáum pakkningum neðst í ferðatösku hans.

Að sögn brasilískra fjölmiðla telur lögregla að maðurinn hafi fengið efnið í borginni Fort Aleza, sem er norðan við Recife, og honum hafi verið lofað 10.000 evrum fyrir að flytja efnið til Spánar, eða 1,7 milljónum íslenskra króna. Talið er að götusöluandvirði efnisins nemi tæpum 58 milljónum króna.

21 árs gamall Brasilíumaður var  handtekinn með rúmt kíló af hreinu kókaíni á leið í sama flug. Lögregla telur að mennirnir tengist ekki en þeir hafi fengið efnin á sama stað.

Blaðafulltrúi lögreglunar sagði í fjölmiðlum að það hefði komið lögregluyfirvöldum mjög á óvart að Íslendingur tengdist málinu, þar sem landið væri þekkt fyrir litla spillingu. Þetta væru ef til vill afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi, að ungt fólk leiddist út á braut glæpa. 
 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert