Fulltrúar frá bandarísku fyrirtæki voru staddir hér á landi nýverið til að kynna sér áform um byggingu koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur fyrirtækið, sem rekur koltrefjaverksmiðju í Bandaríkjunum, sýnt verkefninu á Íslandi mikinn áhuga. Fulltrúar undirbúningsfélagsins íslenska hafa einnig kynnt sér aðstæður í Bandaríkjunum og víðar. Undirbúningsfélagið var stofnað fyrir rúmu ári en að því standa Gasfélagið, sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, Kaupfélag Skagfirðinga og sveitarfélagið Skagafjörður. Lögðu þessir aðilar til 25 milljónir króna í hlutafé sem nú er svo gott sem uppurið. Gildistími upphaflegs samkomulags er líka liðinn en að sögn Snorra Styrkárssonar, formanns atvinnumálanefndar Skagafjarðar, sem á sæti í stjórn félagsins, eru allar líkur á að samkomulagið verði framlengt og hlutafé aukið til að rannsóknir og annar undirbúningur haldi áfram.
Bankahrunið hefur vissulega tafið undirbúninginn en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að ákvarðanir um framhald verkefnisins lægju fyrir í mars á þessu ári. „Við teljum okkur hafa náð markverðum árangri, með því að átta okkur betur á stöðunni í þessum iðnaði og ná samböndum við aðila sem framleiða koltrefjar,“ segir Snorri og vonast til að í sumar náist jákvæðir áfangar sem auki enn líkur á að verksmiðjan rísi á Sauðárkróki.
Koltrefjar eru notaðar sem styrkingarefni við framleiðslu á ýmsum vörum, m.a. í framleiðslu flugvéla og bíla. Talið er að þetta efni muni á næstu árum leysa af hólmi þekkt smíðaefni í iðnaði eins og ál, stál og timbur, en efnið er td. mun léttara en ál.