Hjartaheill, samtök hjartasjúklinga, hafa ekki fengið kynningu á áformum Landspítalans um að sameina bráðamóttöku spítalans á einn stað í Fossvogi. Formaður Hjartaheilla, Guðmundur Bjarnason, segir það miður að ekki hafi verið leitað álits samtakanna og óttast hann að öryggi hjartasjúklinga sé teflt í tvísýnu.
„Það skiptir hjartasjúklinga afar miklu máli að gott samband sé á milli bráðamóttökunnar og hjartadeildarinnar, sem hefur verið í mikilli uppbyggingu, ekki síst fyrir tilstilli Hjartaheilla þegar safnað var fyrir nýju hjartaþræðingartæki og sett upp stórbætt aðstaða fyrir móttöku bráðasjúklinga. Það skiptir hver mínúta máli ef menn eru í bráðri þörf fyrir skoðun eða þræðingu,“ segir Guðmundur.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.