Ásókn í íslenskupróf fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt

Alls hafa 118 útlendingar skráð sig í íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt sem haldin verða af Námsmatsstofnun í næsta mánuði.

Í  byrjun árs tók gildi það ákvæði í lögum um íslenskan ríkisborgararétt að umsækjandi skuli hafa staðist próf í íslensku. Prófin miðast við lokamarkmið í grunnnámi í íslensku fyrir útlendinga (240 stundir), samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins. Prófið er bæði skriflegt og munnlegt og skal reynt á tal, hlustunarskilning, ritun og lesskilning. Umsækjandi þarf að hafa næga kunnáttu í íslensku til að geta bjargað sér við daglegar aðstæður í skóla, vinnu og einkalífi. Hann þarf að geta lesið og skrifað stutta texta á einföldu máli um kunnugleg efni og tekið þátt í umræðum um þau. Þá þarf hann að geta bjargað sér við óvæntar aðstæður, skilið einfaldar samræður og greint aðalatriði í ljósvakamiðlunum um kunnugleg efni.

Ekki verður gefin einkunn, heldur aðeins tilkynnt hvort próftaki hafi staðist lágmarkskröfur.

Skráningu í prófin lýkur 14. maí nk. Þeir sem skrá sig eftir þann tíma geta tekið próf næst þegar þau verða haldin, væntanlega í nóvember/desember á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert