Fríverslun hústökufólksins við Vatnstíg 4 lokaði snemma eftir að lögreglan mætti á svæðið og rýmdi húsið. Hústökufólkið opnaði verslunina sem býður upp á ókeypis varning aftur í dag en til mikilla átaka kom á dögunum þegar lögregla rýmdi húsið og henti íbúum þess út.
Fólkið freistaði þess að fara aftur inn í húsið í dag en einungis á neðri hæðina þar sem verslunin er. Fulltrúi eiganda bað fólkið að víkja án árangurs og lögreglan var kölluð til. Ekki kom til mikilla átaka milli lögreglu og fólksins í þetta sinn og fékk það leyfi til að pakka saman og yfirgefa húsið með góðu eftir að lögreglan hafði látið til skarar skríða.
Í yfirlýsingu frá hústökufólkinu kemur fram að aðgerðin í dag var hugsuð til að sýna pólsku hústökufólki samstöðu en dagurinn í dag. 6. maí er tileinkaður baráttu þeirra.