Þess hefur ekki orðið vart hjá bönkunum þremur, Íslandsbanka, Nýja Kaupþingi og Nýja Landsbanka, að einstaklingar séu farnir í greiðsluverkfall og hættir að greiða af lánum sínum. Sama er upp á teningnum hjá Sparisjóðnum í Keflavík.
Einhver dæmi munu vera um að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði hafi nefnt að hætta að greiða af lánum sínum en þau tilvik munu vera fá, samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum.
Þess hefur ekki orðið vart hjá útibúasviði Íslandsbanka að fólk sé að fara í greiðsluverkfall. „Við leggjum mikla áherslu á að reyna að leysa málin með viðskiptavinum okkar og bjóðum þeim upp á ýmis úrræði, t.a.m. greiðslujöfnun erlendra og verðtryggðra lána,“ sagði Már Másson, forstöðumaður samskiptamála bankans.
Nýlega var kannað í stærstu útibúum Nýja Kaupþings hvort þar bæri eitthvað á því að einstaklingar væru farnir í greiðsluverkfall en svo var ekki. Í Nýja Landsbankanum hafði þess ekki heldur orðið vart að einstaklingar neituðu að borga afborganir af lánum.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.