Hópur fólks er nú í húsi við Vatnsstíg sem lögregla rýmdi um miðjan síðasta mánuð. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík eru um tuttugu einstaklingar í húsinu. Tilkynnt var um veru þeirra þar um hádegi í dag og er málið í athugun.
Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um það hvort fólkið er í húsinu með leyfi eiganda þess en það var ekki hann sem tilkynnti um veru fólksins í húsinu.
Húsið er eitt þeirra húsa sem staðið hafa auð og ónotuð mánuðum saman í miðborg Reykjavíkur en nágrannar slíkra húsa hafa oft kvartað undan slæmum frágangi við þau og sagt þau ógna öryggi umhverfisins.
Hópurinn, sem er í húsinu, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að hann hafi farið inn í húsið í tilefni af því að í dag sé alþjóðlegur samstöðudagur með Rozbrat, húsi hústökufólks í Poznan, Póllandi.
Yfirlýsingin fer í heild sinni hér á eftir:
„FRÍBÚÐIN
Í húsinu okkar við Vatnsstíg 4 OPNAR AFTUR í dag, 6. maí, kl 12:00.
6. maí er alþjóðlegur samstöðudagur með Rozbrat, gamalgrónu tökuhúsi í Poznan, Póllandi. Lengi vel hafa þeir sem standa að Rozbrat átt í hættu að missa húsið og nú er hættan raunveruleg.
Enduropnun fríbúðarinnar er yfirlýsing. Við sýnum fólkinu í Póllandi samstöðu. Þau vilja verja heimili sitt og félagsrými frá eyðileggingu af hálfu yfirvalda.
Hún er einnig yfirlýsing um staðfestu og andstöðu. Við munum ekki lúta í lægra haldi! Borgin er fyrir fólkið! EKKI kapítalíska elítu: auðjöfra, bankakakkalakka, fjárfesta og verktaka!
Fríbúð er staður þar sem maður getur gefið og þegið veraldlega hluti. Staður þar sem allir eru velkomnir til að taka þátt. Þar eru engir peningar í spilinu.
Fríbúðin opnaði fyrst föstudaginn 17. apríl í tökuhúsinu við Vatnsstíg 4, 101 Reykjavík. Húsið var rýmt af lögreglu með miklu valdi 5 dögum síðar. Nú tökum við rýmið okkar aftur og opnum búðina á ný.
ÁFRAM ROZBRAT - ENDURHEIMTUM BORGINA!
ÁFRAM FRÍBÚÐIN - BORGIN mun verða okkar!"