„Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 7. maí. Að óreyndu verður ekki öðru trúað en bankinn taki ákvörðun um myndarlega lækkun vaxta, færi þá að minnsta kosti niður í 10% í stað gildandi 15,5% stýrivaxta sem leiða til yfir 20% vaxtabyrðar af skuldbindingum heimila og fyrirtækja. Hver maður sér að þetta getur ekki gengið svona lengur. Enginn rekstur rís undir þessu vaxtaokri,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í nýjasta leiðara Íslensks iðnaðar.
Jón Steindór segir engan eftirspurnarþrýsting réttlæta svo háa vexti. Þá hafi verið færð fyrir því gild rök að vaxtalækkun geti jafnvel stuðlað að minnkandi útstreymi gjaldeyris. Það gangi ekki að horfa í baksýnisspegilinn og meta verðbólgu á þeim mælikvörðum sem eru ruglaðir vegna gengishruns og hrávöruhækkana liðins árs.
„Nú þarf að horfa fram á veginn og þá blasir við að verðbólgan er að þurrkast út og raunveruleg hætta er að verða á verðhjöðnun. Þá væri farið úr öskunni í eldinn. Það verður með öllum ráðum að ná vöxtum á svipað stig og annars staðar. Um leið þarf að koma bankakerfinu á fullt skrið til að örva eftirspurn. Verði það ekki gert hratt og örugglega verður vandi íslensks samfélags fljótt illviðráðanlegur,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins.