Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að ráðgjöf til fólks í greiðsluerfiðleikum verði stórefld til að mynda hjá Ráðgjafarstofu heimilanna. Hún segir að ábendingar Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ hafi verið réttmætar og upplýsingastreymi frá stjórnvöldum til fólks hefði mátt vera kröftugra.
Gylfi sagði við mbl.is í gær, að það væri algert skilyrði fyrir því að ASÍ væri til viðræðu um þjóðarsátt að ráðnir yrðu að minnsta kosti fimmtíu fjármálaráðgjafar til að vera óháðir ráðgjafar fólks í greiðsluerfiðleikum.
Jóhanna segir að um leið og upplýsingar frá Seðlabanka liggi fyrir um, tekjur fólks í greiðsluerfiðleikum, verði hægt að skoða frekari úrræði. Hún segist hafa fullan skilning á því að aðstæður fólks séu slæmar víða í þjóðfélaginu en segist þó trúa því engu að síður að fólk hafi ekki alltaf kynnt sér nægilega vel þau úrræði sem séu þegar í boði.