Þingmenn Borgarahreyfingarinnar telja að þremur skilyrðum þurfi að fullnægja til að þeir fallist á þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við ESB. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim.
Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi að tryggð verði gagnsæ og hlutlaus miðlun fræðslu frá sérstakri upplýsingastofu á vegum Alþingis. Stofan skal skipuð fagfólki og taka mið af reynslu nágrannaþjóða við þjóðaratkvæðagreiðslur. Endanlegur samningur skal vera almenningi aðgengilegur.
Í öðru lagi að samninganefndin verði skipuð á faglegum forsendum og njóti ráðgjafar a.m.k. tveggja óháðra erlendra sérfræðinga.
Í þriðja lagi að tryggt verði jafnt vægi atkvæða allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.