„Það er komin leiðindakergja í hópinn vegna þess hvernig staðið er að þessum leiguflugsverkefnum. Við erum í rauninni að kalla eftir stefnubreytingu,“ segir Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Félagið hyggst stefna Icelandair fyrir félagsdóm vegna meintra brota á kjarasamningum. FÍA segir Icelandair manna flugverkefni erlendis með flugmönnum sem ráðnir eru sem verktakar í gegnum áhafnaleigur í skattaskjólum.
Í bréfi stjórn FÍA til Icelandair er lýst yfir gríðarlegum vonbrigðum með ákvörðun Icelandair. Í bréfinu segir að þetta sé sérstaklega dapurlegt í ljósi þess að færa megi rök fyrir því að íslenska ríkið fari í dag með um þrjá fjórðu hluta hlutafjár í félaginu.
„Um sextíu flugmenn FÍA sem starfað hafa hjá Icelandair Group hf / Icelandair ehf eru án atvinnu í dag og flestir þeirra á atvinnuleysisbótum hjá íslenska ríkinu. Þrátt fyrir að flugverkefni séu fyrir hendi hjá Icelandair Group hf er þessum mönnum haldið utan þeirra,“ segir í bréfinu.
Tiltekið er að leiguflugsverkefni erlendis sem til stóð að flugmenn Icelandair ættu að vinna og búið var að kynna stéttarfélaginu, var án fyrirvara fært frá Icelandair og öðru dótturfélagi Icelandair Group hf, SmartLynx í Lettlandi falið að sinna verkefninu. Til að sinna störfum flugmanna voru endurráðnir verktakaflugmenn í gegnum áhafnaleigu á Guernsey í stað þess að endurráða atvinnulausa flugmenn á kjarasamningi stéttarfélagsins.
Í bréfi stjórnar FÍA til Icelandair er minnt á að umrætt verkefni skuli, samkvæmt kjarasamningi, mannað flugmönnum Icelandair. Þá segir að með vísan til ástands efnahagsmála á Íslandi hafi stjórn FÍA ekki viljað láta sverfa til stáls í þessu mikla réttlætismáli. Nú sé hvorki staður né stund til þess að standa í harðvítugum átökum.
„Þolinmæði okkar er hins vegar á þrotum og því viljum við vekja athygli stjórnvalda og almennings á þessari stöðu. FÍA hefur þegar hafið undirbúning að málshöfðun fyrir Félagsdómi vegna meintra brota Icelandair Group hf / Icelandair ehf. Stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna skorar á stjórn Icelandair Group hf. að breyta afstöðu sinni,“ segir í niðurlagi bréfs stjórnar FÍA til Icelandair.