Núverandi vaxtastefna Seðlabanka Íslands ógnar bankakerfinu eins og það leggur sig, segir í nýrri ályktun frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands.
„Samkvæmt upplýsingum viðskiptaráðherra er mikið ójafnvægi milli innlendra skulda bankanna og eigna þeirra í erlendri mynt. Háir vextir gera það erfitt að taka á þessum mikla halla á gengisjöfnuði. Verði hann ekki réttur af mun kostnaðurinn lenda af fullum þunga á ríkissjóði, almenningi og fyrirtækjum, sem þegar róa lífróður,“ segir í ályktuninni.
Óttast miðstjórnin að verði ekki snúið af óheillabraut ofurhárra vaxta á sama tíma og gjaldeyrishömlur séu í gildi, þá blasi við frekari fjöldauppsagnir og gjaldþrota.
Hún krefst þess að vextir lækki verulega og hvetur Seðlabanka Íslands til að lækka stýrivexti við vaxtaákvörðun á morgun þannig að vaxtamunur verði ekki meiri en sem nemur 4% miðað við evrópska seðlabankann. Vextir þar eru í dag 1,25%. Það þýðir að miðstjórn ASÍ vill að stýrivextir lækki úr 15,5% í 5,25%.