„Ef ég fæ um þetta ráðið, þá siglum við,“ sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, um byggingu nýs landspítala, á aðalfundi Landspítala (LSH) í Salnum í Kópavogi í dag. Hann vill því að farið verði af stað með byggingu nýs sjúkrahúss.
„Þegar kynntar voru endurskoðaðar hugmyndir um byggingu nýs Landspítala sagði forstjórinn: Við höfum ekki efni á, að gera ekki neitt. Ég er sammála, en ég get engu lofað á þessu stigi, enda maðurinn í reynd nánast umboðslaus eins og sakir standa, þótt ég hafi hótað því að vera í embætti í tólf ár,“ sagði Ögmundur á léttu nótunum.
Hann sagði hins vegar að skynsamar hugmyndir liggi fyrir um byggingu nýja sjúkrahússins og að hægt sé að færa gild rök fyrir því að ráðast í þær framkvæmdir í ljósi hagræðingar og vegna atvinnupólitíkur.
„Verði ég áfram í embætti mun ég tryggja að málið verði fært upp á vinnuborðið en ekki sett til hliðar. Það er nefnilega hárrétt hjá Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss að það dýrt og óskynsamlegt að leggja árar í bát,“ sagði Ögmundur.