Bandarískir fjárfestar hafa áhuga á að kaupa hlut í Geysi Green Energy (GGE), Íslandsbanki á handveð í öllum hlut félagsins í Hitaveitu Suðurnesja og samkvæmt nýlegu mati á eignum og skuldum GGE er eigið fé þess að mestu uppurið.
Heimildir Morgunblaðsins herma að erlendu fjárfestarnir hafi fundað ásamt Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra GGE, með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins fyrir skemmstu. Ásgeir staðfestir að erlendir aðilar hafi verið hérlendis en vill ekki segja hverjir þeir eru. „Það er nokkuð ljóst að fjármagn til þessarar starfsemi er af skornum skammti á Íslandi þannig að við höfum leitað þess erlendis. Það er rétt að við vorum með gesti um daginn sem voru að skoða okkur.“ Helsta eign GGE er þriðjungshlutur í HS-veitum og HS-orku, sem áður mynduðu Hitaveitu Suðurnesja (HS). Í fundargerð stjórnar HS frá því í ágúst kemur fram að Íslandsbanki eigi handveð í öllum hlutum GGE í báðum þessum fyrirtækjum. Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að samkvæmt mati sem var gert á virði eigna og skulda GGE hafi eigið fé félagsins einungis verið um 650 milljónir króna í lok mars.