Bormenn í basli á tvö þúsund metra dýpi

mbl.is/Birkir

Á sama tíma og hver hópurinn af öðrum gengur á rúmlega tvö þúsund metra háan Hvannadalshnúk glíma bormenn Íslands við festu og hrun á rúmlega tvö þúsund metra dýpi í borholu í Vítismóum í grennd við Kröflu. Hvorki hefur gengið né rekið í rúmlega hálfan mánuð og um síðustu helgi var ákveðið að skilja borkrónuna eftir og fara framhjá festunni á leið niður á rúmlega fjögur þúsund metra dýpi.

„Þetta hefur gengið brösulega síðan við komumst niður á um tvö þúsund metra 17. apríl,“ segir Bjarni Pálsson, verkfræðingur hjá Landsvirkjun Power. „Bergið er mjög lagskipt þarna og hrungjarnt og við lentum tvisvar sinnum í því að það hrundi á strenginn og holan var við það að falla saman. Við það að reyna að losa okkur út úr þeim vandræðum slitnaði strengurinn, fyrst á 2.050 metrum og síðan á 2.102 metrum. Okkur tókst að fiska upp hluta af strengnum en þrjátíu metrar og borkrónan urðu eftir neðst í holunni.

Við teljum mikilvægt að hafa holuna eins beina og framast er kostur og því lögðum við mikið á okkur til að ná krónunni og strengnum upp. Nú höfum við fallið frá því og erum að steypa tappa neðst í holuna. Síðan er ætlunin að bora út úr holunni ofan við tappann og sveigja framhjá festunni og borkrónuleifunum. Við teljum að ef vel tekst til með þessa aðgerð, þá geti hlykkurinn orðið það mjúkur að hann valdi ekki of mikilli mótstöðu,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert