Dollarinn ekki undir 100 krónum

Ingjaldur Hannibalsson.
Ingjaldur Hannibalsson. mbl.is/Golli

„Ég tel að það sé ólíklegt að dollarinn fari undir sem nemur hundrað krónum í framtíðinni, og líklegt að hann verði á bilinu 110 til 130 krónur,“ sagði Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands, á opnum fundi um samkeppnishæfni í Odda í morgun. Gengi dollarans er  í dag 127 krónur.

Á fundinum fór Ingjaldur meðal annars yfir þær miklu breytingar sem urðu á íslensku efnahagslífi eftir árið 2003. Einnig rakti hann í stuttu máli efnahagssögu landsins frá því um aldarmótin 1900. Ísland hefði breyst úr „mjög fátæku sveitasamfélagi“ í nútímalegra efnahagsþjóðfélag á skömmum tíma.

Ingjaldur sagði það blasa við að Íslendingar þyrftu að koma sér út úr kreppunni með því að vinna meira, fyrir minni pening. Ekkert annað kæmi til greina. Auk þess þyrfti að nýta náttúruauðlindir til hins ýtrasta til þess að efla efnahag landsins eftir hrun bankakerfisins í október í fyrra.

Fyrirlesarar á fundinum, sem auk Ingjaldar voru Hákon Gunnarsson og Hálfdán Karlsson frá ráðgjafafyrirtækinu Spannir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður, voru sammála um að móta þyrfti skýra framtíðarsýn í atvinnumálum. Hákon og Hálfdán fjölluðu sérstaklega um mikilvægi stefnumótunar og sögðu það mikilvægt við þær aðstæður sem hér hefðu skapast, að búa til skýra stefnu til ársins 2020. Hún þyrfti að miða að því að efla einstaka atvinnuvegi, með skýrri verkaskiptingu og samstarfi fyrirtækja, hins opinbera og háskóla.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ávarpaði fundinn í upphafi í gegnum fjarfundarbúnað, en vegna anna gat hann ekki verið á staðnum eins og til stóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert