Eðlilegt að miða við laun forsætisráðherra

Sárafáir stjórnendur ríkisstofnana hafa hærri laun en forsætisráðherra, segir Haukur Ingibergsson, formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, sem telur um 200 félagsmenn. 

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar verður kveðið á um að laun ríkisforstjóra verði ekki hærri en laun forsætisráðherra. Haukur segir að innan ríkiskerfis þurfi að vera samræmi og það sé alls ekki óeðlilegt að miða við að laun æðstu stjórnenda ríkisins séu þau hæstu. Það verði þó að hafa í huga að þá verði önnur réttindi og kjör líka að vera jöfn, svo sem lífeyrisgreiðslur. 

Kjararáð ákveður laun forstöðumanna og forstjóra hefðbundinna ríkisstofnana og tekur þar mið af ákveðnum þáttum svo sem launaþróun. Öðru máli gegnir um stjórnendur ríkisstofnana, fyrirtækja og hlutafélaga í eigu ríkisins sem hafa yfir sér sérstaka stjórn sem hefur meðal annars það hlutverk að ákvarða laun forstjóranna. Haukur segir að þar hljóti að vera hægt að setja viðmið eins og hjá kjararáði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert