„Báðir flokkar hafa þá afstöðu að vilja fara í breytingar í sjávarútvegsmálum. Við höfum hins vegar alltaf sagt, eða að minnsta kosti ég, að það þurfi að vanda sig í öllu sem lýtur að þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. Hún er auðvitað í viðkvæmri stöðu með sínar miklu skuldir. Ef þetta verður í mínum höndum, og eitthvað sem ég ber ábyrgð á, verður ekkert ábyrgðarleysi í því,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, spurður út í frétt Morgunblaðsins í gærdag þess efnis að stjórnarflokkarnir ætluðu ekki að ráðast í róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á næstunni.
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, svaraði spurningum blaðamanns fréttavefs Morgunblaðsins, mbl.is, hins vegar afdráttarlaust. Jóhanna sagði að stefna beggja flokka væri að kalla aflaheimildir inn í áföngum og sú leið yrði farin.
Flokkarnir funduðu stíft í gærkvöldi um stjórnarsáttmála sem að öllum líkindum verður kynntur almenningi á laugardaginn. Steingrímur og Jóhanna voru á einu máli um það að vinnan gengi vel. Jóhanna sagði ekkert hafa komið upp sem breytti því að ný ríkisstjórn yrði kynnt um helgina. Steingrímur bætti því við að til lands sæist í flestum efnum „En það er náttúrlega ekki búið að ganga frá samkomulagi um neitt fyrr en það er búið að klára allt. Það er heildarmyndin sem að lokum verður metin.“
Steingrímur sagði að um leið og niðurstaða fengist væri hægt að tímasetja hvenær þing yrði kallað saman. Hann sagði ennfremur að þess þings biðu ærin verkefni.