Bæjaryfirvöld í Grindavík hafna harðlega svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi sem sé lífæðin og grundvallaratvinnugrein byggðarinnar.
Útgerðarmenn í Grindavík komu til fundar við bæjaryfirvöld í gær og lýstu yfir þungum áhyggjum af fiskveiðistefnu stjórnvalda vegna fyrningarleiðar.
Í bókun sem bæjarráð Grindavíkur samþykkti í gær segir að bæjaryfirvöld í Grindavík séu sammála um að fyrningarleiðin sé ekki ásættanleg fyrir byggðina. Grindvíkingar hafi oftar en einu sinni verið settir í óvissu vegna umræðu innan stjórnmálaflokka um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Nú sé mikilvægt að skapa ró um sjávarútveg og fiskvinnslu þannig að horfa megi til lengri tíma.
„Í Grindavík hafa menn lagt sig alla fram um að skapa atvinnu og halda fyrirtækjum gangandi. Það á að vera keppikefli allra að byggja áfram á grunnstoðum sjávarútvegsins. Fiskveiðar og vinnsla hafa verið okkar haldreipi í gegnum tíðina, eins og hefur sýnt sig best í verstu kreppu sem riðið hefur yfir þjóðina. Þess vegna ber að halda kvóta í heimabyggð og sækja fram á við, hvað sem á dynur. Sterk fyrirtæki í Grindavík gagnast öðrum sveitarfélögum, eins og hefur sýnt sig. Atvinnulífið í Grindavík er með því besta sem gerist á landinu í dag. Bæjaryfirvöld standa umfram allt vörð um hagsmuni bæjarbúa og vara við því að hrykkt verði í þeim styrkum stoðum atvinnulífsins sem sjávarútvegurinn er,“ segir í bókun bæjarráðs Grindavíkur.