Íslendingar fá 4,3 í einkunn í fjármálalæsi, miðað við fyrstu rannsóknina sem gerð hefur verið á fjármálalæsi þjóðarinnar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að fólk vill fræðast um fjármál. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á 38% íslenskra heimila er haldið heimilisbókhald.63%
landsmanna leggja fyrir í séreignarlífeyrissparnað og 60% leggja fyrir
eða eiga sérstakan varasjóð til að mæta óvæntum skakkaföllum eða
tekjumissi.
Alls sögðust rúm 80% þátttakenda vera að greiða
af einhvers konar láni eða nýta yfirdráttarheimild í banka. Af þeim eru
fasteigna- og bifreiðalán algengust. Hæsti yfirdráttur einstaklings var
3,8 milljónir króna
Tæplega 51% Íslendinga telja mjög litlar eða
nær engar líkur vera á því að þeir geti ekki greitt afborganir af lánum
eða borgað skuldir á réttum tíma á næstu 6 mánuðum. Hins vegar telja um
12% Íslendinga miklar líkur á slíku.
Tæpur fjórðungur sagðist hafa
frekar eða miklar áhyggjur af eigin fjármálum. Annar fjórðungur sagðist
hafa nokkrar áhyggjur af eigin fjármálum og 35% aðspurðra sagðir hafa
frekar litlar áhyggjur. Tæpur fimmtungur Íslendinga segjast hafa mjög
litlar eða nær engar áhyggjur af eigin fjármálum.
Athygli vekur að rúmlega 42% Íslendinga hafa mjög eða frekar mikinn áhuga á því að fá ítarlegri fræðslu um fjármál.
Meðaltal
réttra svara á þekkingarhluta rannsóknarinnar var 53%. Ef gefa ætti
einkunn hefði mátt draga 0,25 frá fyrir röng svör við
fjölvalsspurningum með 4 svarmöguleikum þar sem 25% líkur eru á að
ramba á rétt svar. Út frá því hefði mátt gefa þátttakendum
meðaleinkunnina 4,28 á skalanum 0-10.
Einungis tíundi hver
þátttakenda gerir sér grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiða. Almennt
töldu þátttakendur kostnaðinn um helmingi lægri en sem nemur
útreikningi Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Fjármálalæsi er getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins, að því er segir í tilkynningu.
Það feli meðal annars í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild. Fjármálalæsi greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf.
Rannsóknin var unnin af Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík og Rannsóknum og greiningu fyrir Viðskiptaráðuneytið og Samtök fjárfesta. Hún náði til 966 manna tilviljunarúrtaks Íslendinga á aldrinum 18-80 ára. Svarhlutfall var 65%. Rannsóknin hefur verið valin af OECD sem ein af tíu rannsóknum í heiminum sem grunnur að staðli fyrir rannsóknir í fjármálalæsi.