Fjölmiðlar á Íslandi njóta mests frelsis í heiminum að mati bandarísku stofnunarinnar Freedom House, sem hefur birt árlega skýrslu sína um frelsi fjölmiðla. Er Ísland nú eitt í 1. sæti en hefur undanfarin ár deilt því með Finnlandi.
Finnland og Noregur eru í 2.-3. sæti og síðan koma Danmörk og Svíþjóð, Belgía, Lúxemborg, Andorra, Holland og Sviss. Verst er ástandið á Kúbu, í Erítreu, Líbýu, Búrma, Túrkmenistan og Norður-Kóreu.
Stofnunin segir, að verulega hafi dregið úr frelsi fjölmiðla á síðasta ári, sjöunda árið í röð og versnaði ástandið á öllum skilgreindum svæðum. Vísar stofnunin m.a. til ríkja á borð við Ísrael, Ítalíu og Hong Kong þar sem dregið hafi úr frelsi fjölmiðla á árinu 2008.
Jennifer Windsor, framkvæmdastjóri Freedom House, segir á heimasíðu stofnunarinnar, að fjölmiðlar sæti auknum þrýstingi frá stjórnvöldum og valdamiklum fyrirtækjum á sama tíma og efnahagsástandið í heiminum hafi valdið því að fjárhagur fjölmiðla hefur versnað gríðarlega.
„Fjölmiðlar eru brjóstvörn lýðræðis og sú hætta, sem steðjar að þeim getur haft gríðarlegar afleiðingar," segir hún.
Lagt var mat á frelsi fjölmiðla í 195 löndum út frá lagaumhverfi, pólitísku ástandi og efnahag. Af ríkjunum 195 er fjölmiðlafrelsi talið ríkja í 70, eða 36%, tveimur færri en í fyrra. Í 61 ríki, eða 31%, ríkir frelsi að hluta og í 64 ríkjum, eða 33%, er ekki frelsi. Aðeins um 17% mannkyns býr í löndum þar sem fjölmiðlar njóta fulls frelsis.