„Það kom mér verulega á óvart hvað þetta er mikið,“ segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, varðandi upplýsingar sem bærinn hefur tekið saman um viðskipti við fyrirtæki dóttur bæjarstjórans. Samfylkingin óskaði eftir þessum upplýsingum á fundi bæjarráðs í dag.
„Við flettum í gegnum það sem liggur fyrir. Þessi viðskipti nema tugum milljóna síðustu 10 árin,“ segir Guðríður og bætir við að gróft reiknað nemi þetta um 50 milljónum kr.
Fyrir um mánuði síðan óskaði Samfylkingin í Kópavogi eftir upplýsingum um viðskipti bæjarins við
fyrirtækið Frjálsa miðlun, tíu ár aftur í tímann. Þá voru þær ekki tilbúnar.
„Við óskuðum á fundinum eftir því að fá þau gögn sem væri búið að taka saman, og vildum fá það í dag. Við fengum það ekki. En við fengum að sjá þessi plögg sem liggja fyrir, en fengum þau ekki afhent,“ segir Guðríður.
Aðspurð segir hún að bæjaryfirvöld hafi lofað að gögnin muni liggja fyrir á fundi bæjarráðs í næstu viku. „Þá munum við fá afhent gögnin, listann yfir verkin, upphæðirnar og árin sundurliðað. Ásamt upplýsingum um hvað af þessum verkum var boðið út,“ segir hún.
„Það kom mér á óvart hvað þetta er langur listi og það kom mér á óvart hvað þetta eru háar upphæðir,“ segir Guðríður og bætir við: „Þessi verk eiga sér öll vonandi skýringar.“