Sauðfjár- og kúabændur taka á sig allt að einn milljarð króna í skerðingar á næstu fjórum til sex árum, samkvæmt samkomulagi við ríkisvaldið. Atkvæði verða greidd meðal bænda í lok mánaðarins. Garðyrkjubændur standa utan við samkomulagið. Þeir vilja að hækkun raforkuverðs frá 1. febrúar verði tekin aftur.
Forysta Bændasamtaka Íslands og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, skrifuðu 18. apríl sl. undir samkomulag um breytingar á starfsskilyrðum sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. Gildandi búvörusamningar verða framlengdir um tvö ár, samningur við sauðfjárbændur til loka árs 2015 og samningur við kúabændur til loka árs 2014. Samkomulagið hefur í för með sér umtalsverðar skerðingar á framlögum ríkisins til búgreinanna, um eða yfir 200 milljónir króna í hvorri grein á ári næstu þrjú til fjögur ár.
Garðyrkjubændur sögðu nei
Garðyrkjubændur treystu sér ekki til að skrifa undir samkomulagið vegna fjórðungs hækkunar á rafmagni 1. febrúar sl. sem Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra ákvað. Garðyrkjubændur vilja að fallið verði frá hækkuninni og eiga þeir nú í viðræðum við ríkið vegna þess. Samkvæmt heimildum mbl.is verða ákvæði um stuðning í einhverju formi til handa garðyrkjubændum í sáttmála ríkisstjórna Samfylkingar og VG.
Fáir góðir kostir í stöðunni
Hátt í tuttugu kynningarfundir um breytingar á gildandi búvörusamningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu hafa verið haldnir að undanförnu. Forysta bænda fór til fundanna og mælti með breytingunum, taldi samkomulagið við ríkið það besta sem hægt væri að ná í stöðunni.
„Það er auðvitað afskaplega erfitt að segja hvað þetta þýðir á samningstímanum, því það er svo háð verðbólgunni. Ef hún fer af stað þá þýðir það umtalsverða skerðingu á hvert bú. Vitaskuld gerum við svona samning í trausti þess að stöðugleiki náist,“ segir Erna Bjarnadóttir, sviðsstjóri félagssviðs Bændasamtaka Íslands.
Ef verðbólgan á þessu ári verður 10% þá verður skerðingin hátt í 200 milljónir króna hjá sauðfjárbændum og rúmar 200 milljónir hjá mjólkurframleiðendum. Mjólkurframleiðendur eru um 700 og sauðfjárbændur um 1500.
Árleg framlög ríkisins til mjólkurframleiðslu
Þá framlengist samningur um mjólkurframleiðsluna til 31. desember 2014 eða um 28 mánuði. Núgildandi samningur gildir til 31. ágúst 2012. Framlög ríkisins árin 2013 og 2014 verða samkvæmt núverandi samningi en skerðast um 1% hvort ár, að teknu tilliti til breytinga í samræmi við neysluvísitölu. Í heildina gæti samningurinn þýtt um eða yfir 700 milljóna skerðingu fyrir kúabændur, miðað við eldri samning.
Árleg framlög ríkisins til sauðfjárræktar
Þá framlengist samningur um sauðfjárræktina til 31. desember 2015 eða um 2 ár. Núgildandi samningur gildir til 31. desember 2013. Framlög ríkisins árin 2014 og 2015 verða samkvæmt núverandi samningi en skerðast um 1% hvort ár, að teknu tilliti til breytinga í samræmi við neysluvísitölu. Í heildina gæti samningurinn þýtt um eða yfir 500 milljóna skerðingu fyrir sauðfjárbændur, miðað við eldri samning.
Samkvæmt samkomulagi ríkis og bænda er stefnt að því að verðlagsárið verði almanaksárið. Næsta verðlagsár, sem hefst 1. september 2009 verður því 16 mánuðir eða frá 1. september 2009 til 31. desember 2010.
Atkvæði talin 2. júní
Eins og áður segir standa garðyrkjubændur utan við samkomulag um breytingar á búvörusamningum.
Verið er að útbúa kjörskrár fyrir sauðfjár- og kúabændur og lýkur því verki í byrjun næstu viku. Þá verða kjörseðlar sendir bændum en atkvæðagreiðsla hefst 15. maí. Greidd verða atkvæði í póstkosningu og lýkur atkvæðagreiðslu 29. maí. Atkvæði verða talin þriðjudaginn 2. júní. Þá kemur í ljós hver afdrif samkomulags ríkisins og forystu bænda vegna sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu verða.