„Við bjuggumst við töluvert myndarlegri lækkun, við vonuðumst til þess að þetta yrði meira. Það er undirliggjandi þörf fyrir mun meiri vaxtalækkun og við verðum bara að vona að skrefin sem stigin verða á næstunni verði á þessum nótum,“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Bjarni segir ákvörðun Seðlabankans í sjálfu sér ekki koma á óvart.
„Við höfum ekki heyrt rökstuðning Seðlabankans, hversu mikil eining er innan peningastefnunefndarinnar með þessa ákvörðun eða hversu sterk fingraför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru á þessari ákvörðun. Forsendur fyrir háum vöxtum virðast manni vera frekar hæpnar en Seðlabankinn virðist reyna að trappa þetta mjög varlega niður. Við höfum verið að tala fyrir því að koma stýrivöxtunum niður undir 10% og þá erum við að horfa til þess hvaða vaxtabyrði fyrirtækin og fólkið í landinu þola. Þrátt fyrir að 2,5 prósentustiga lækkun virðist töluverð þá dugar þetta hvergi nærri til, til að létta á þeim sársauka sem menn óneitanlega finna fyrir út af þessu háa vaxtastigi.“