Skora á heilbrigðisráðherra

Heilsugæsla Fjarðabyggðar á Reyðarfirði.
Heilsugæsla Fjarðabyggðar á Reyðarfirði.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar á heilbrigðisráðherra að hlutast til um í máli yfirlæknis heilsugæslunnar í sveitarfélaginu. Honum var vikið frá störfum í febrúar sl. vegna gruns um fjárdrátt en lögregla vísaði málinu frá. Hann hefur þó ekki fengið að hefja störf að nýju.

„Traust og góð heilsugæsla er meðal þeirra grundvalla lífsgæða sem sóst er eftir í hverju samfélagi. Fátt skiptir heimili jafn miklu máli og góð og persónuleg þjónusta heimilislæknis. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar lýsir áhyggjum af þeirri stöðu sem við er að glíma í heilsugæslu innan sveitarfélagsins og því óefni sem við blasir á Eskifirði. Skorað er á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir lausn í máli yfirlæknis heilsugæslunnar í Fjarðabyggð. Íbúar í Fjarðabyggð gera tilkall til þess að búa við öryggi í heilsugæsluþjónustu,“ segir í ályktun bæjarstjórnar frá því í kvöld.

Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri, segir heilsugæsluna grundvallarþjónustu sem ríkið á að sjá öllum íbúum landsins fyrir. Hún truflast við þetta ástand sem uppi er og því vill bæjarstjórnin biðja ráðherra að finna lausn á málinu sem fyrst.

Yfirlæknirinn, Hannes Sigmundsson, mikils stuðnings og nýverið voru stofnuð Hollvinasamtök heilsugæslunnar í Fjarðabyggð. Um 90 manns eru í samtökunum sem m.a. vinna að því að standa vörð um heilsugæsluna, starfsemi hennar og starfsfólk.

Honum var 12. febrúar sl. vikið tímabundið frá störfum vegna lögreglurannsóknar á reikningum frá honum. Yfirstjórn HSA kærði hann til lögreglu vegna gruns um fjárdrátt, með því hafa ofreiknað sér laun, en embætti ríkissaksóknara ákvað að vísa kærunni frá. Mál hans hafði verið til skoðunar hjá HSA nokkra hríð áður en til kæru kom.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert