Auglýsing í bága við siðareglur

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Blaðaauglýsing Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, þar sem birt var mynd af Steingrími J. Sigfússyni, brýtur í bága við siðareglur Samband íslenskra auglýsingastofa, samkvæmt niðurstöðu síðanefndar SÍA.

Vinstrihreyfingin grænt framboð kærði auglýsinguna til siðanefndar 21. apríl s.l. Í kærunni kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hafi birt blaðaauglýsingu í fjölmörgum svæðismiðlum kjördæmisins. Í auglýsingunni er birt mynd af fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, án leyfis að mati VG. Það sé brot á 8 grein siðareglna SÍA.

„8. gr. siðareglna SÍA er hugsuð til að vernda einkalíf fólks og persónu þess fyrir óheimilli notkun í hefðbundnum auglýsingum, ekki verja ráðamenn þjóðarinnar fyrir gagnrýni,“ segir í greinargerð Agnars Tr. Lemacks, framkvæmdastjóra auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks, sem vann auglýsinguna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminum.

Tilraun til ritskoðunar

„Það var ekki verið að nota Steingrím J. Sigfússon til að selja Coca-Cola. Það var verið að upplýsa fólk um tvöfalda afstöðu hans og flokks hans til stærsta máls kosninganna. Kosningaauglýsingar eru ekki hefðbundnar auglýsingar, þær eru t.d. aldrei merktar auglýsingastofu. Þær eru hluti af mikilvægu lýðræðislegu ferli og hafa þann tilgang að koma mikilvægum upplýsingum um stefnu frambjóðenda og stjórnmálaflokka til skila. Allar tilraunir ráðamanna til að koma í veg fyrir málefnalegar auglýsingar um sjálfa sig eru þar af leiðandi ekkert annað en tilraun til ritskoðunar og aðför að málfrelsi og lýðræði. Í opnu lýðræðisþjóðfélagi þurfa ráðamenn að þola gagnrýni og átök um sig og stefnu sína,“ segir í greinargerðinni.

Í auglýsingunni var vitnað í ummæli formanns VG og fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, þar sem hann sagði aðspurður um aðildarviðræður við ESB og komandi stjórnarsamstarf: „Við skulum sjá til.“

Á þetta féllst siðanefndin ekki. Hún telur ekki heimilt að nota mynd af opinberri persónu í auglýsingaskyni án leyfis. Skiptir ekki máli að myndin sé aðgengileg í prentlausn á heimasíðu Alþingis, þaðan sem hún er fengin. „Nefndin telur ljóst að 8. greinin eigi ekki aðeins við um auglýsingar á vöru og þjónustu heldur einnig framboðsauglýsingar.“

 Í 8 gr. siðareglanna segir: „Grundvallarhugmyndir siðareglnanna eru, að allar auglýsingar skulu vera löglegar, siðlegar, heiðarlegar og segja sannleikann. Auglýsing skal samin með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar og þess að gætt að viðteknum hefðum um sanngirni í samkeppni sé fylgt.“

Mörg fordæmi

Agnar Tr. Lemacks segir mörg fordæmi fyrir myndbirtingu af þessu tagi: „ T.d. dreifði VG barmmerkjum með skrumskældri mynd af formanni Sjálfstæðisflokksins meðan á nýliðinni kosningabaráttu stóð. Það hefur VG gert áður með öðrum leiðtogum Sjálfstæðisflokksins. Engar athugasemdir voru gerðar við það vegna þess að slíkt er einfaldlega hluti af því sem stjórnmálamenn verða að bera.

Þá má nefna sem dæmi fræga auglýsingu Samfylkingarinnar frá árinu 2003 þegar birt var opnuauglýsing í dagblöðum landsins með mynd af öllum forsætisráðherrum þjóðarinnar frá upphafi og í lok auglýsingarinnar var mynd af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Markmiðið var að vekja athygli á að hún yrði fyrsti íslenski kven-forsætisráðherrann ef hún hlyti kosningu.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert