Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ætlar að boða sendiherra Bretlands á sinn fund vegna ummæla Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands um að breska ríkið eigi í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna Icesave-deilunnar. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Ríkisstjórnarfundinum var að ljúka og sagði Össur að hann ætlaði að kalla sendiherrann á sinn fund í dag þar sem hann krefst skýringa á ummælum Brown. Össur segist hins vegar taka orð fulltrúar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á Íslandi trúanleg þar sem hann segir að engar viðræður séu í gangi á milli sjóðsins og Breta um Icesave-málið.
Á Össuri mátti skilja að hann tæki málið alvarlega en hann sæi hins vegar enga ástæðu til þess að slíta stjórnmálasambandi við Breta vegna málsins.
Í fyrirspurnartíma í neðri deild breska þingsins á miðvikudag sagði Brown, að Bretar ættu nú í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, um greiðslu skulda vegna hruns íslensku bankanna.
Hann var spurður um stöðu Christie-spítalans í Manchester sem tapaði sex milljónum punda við fall Kaupþings. Sagði Brown að hún myndi verða ljós þegar menn vissu fyrir víst hve mikið myndi endurheimtast af skuldum íslensku bankanna.
Sagði hann íslensk stjórnvöld hafa haft eftirlit með umræddum bönkum á hendi en þess má geta að bankinn Kaupthing Singer & Friedlander var breskur banki og heyrði því ekki undir Fjármálaeftirlitið hér.
„Það er fyrst og fremst skylda íslenskra stjórnvalda að borga og þess vegna erum við í samningaviðræðum við IMF og fleiri stofnanir um það hve hratt Íslendingar geti endurgreitt tapið,“ sagði ráðherrann.
Nánar verður fjallað um þetta í MBL Sjónvarpi á eftir.