Búið að opna Holtavörðuheiði

Færðin er víða mjög erfið. Úr myndasafni.
Færðin er víða mjög erfið. Úr myndasafni. mbl.is/Sverrir

Að sögn lögreglunnar á Blönduósi var opnað fyrir umferð á Holtavörðuheiði á ný um kl. 21 í kvöld. Lögreglan tekur það hins vegar fram að færðin sé erfið. Krap, hálka, mikil snjókoma og hífandi rok. Tugir ökumanna hafa lent í erfiðleikum á heiðinni í kvöld. Engan hefur hins vegar sakað.

Fram kemur á vef Landsbjargar að björgunarsveitir í Borgarfirði og Húnavatnssýslu hafi staðið í ströngu á Holtavörðuheiði síðan klukkan 17:30 þar sem hríð hafi geisað. Þar sé nokkur hálka, sérstaklega í Hæðarsteinsbrekku, og skyggni lítið.

Farþegar og ökumenn 18 bíla og einnar 15 manna rútu hafi notið aðstoðar björgunarsveitanna, alls um 60 manns. Þar af nokkur ungbörn. Flest ökutækin höfnuðu utanvegar. Hjá nokkrum þeirra drap vélin á sér.

Þá urðu tvær bílveltur við Stórhól og Gauksmýri. Að sögn lögreglu urðu engin slys á fólki en bílarnir skemmdust mikið. Rekja má óhöppin til færðarinnar sem er slæm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert