Sextán Íslendingar sitja í fangelsi eða gæsluvarðhaldi í útlöndum að sögn utanríkisráðuneytisins. Nokkrir af þeim hafa beðið um flutning hingað til að ljúka afplánun. Mögulega sitja fleiri Íslendingar í fangelsum erlendis án þess að því sé kunnugt um það. Hvorki fangarnir né fjölskyldur þeirra hafi þá látið ráðuneytið vita af fangelsuninni.
Undir lok síðasta árs vissi utanríkisráðuneytið um 13 íslenska ríkisborgara í fangelsum í útlöndum sem ýmist voru í afplánun eða gæsluvarðhaldi. Þetta kom m.a. fram í svari Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar alþingismanns, á Alþingi 17. desember 2008.
Einn fanganna var innan við tvítugt, sjö á aldrinum 20-29 ára, fjórir 30-39 ára og einn á sjötugsaldri. Fangelsin voru í Bandaríkjunum, Brasilíu, Danmörku, Hollandi, Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi. Átta höfðu fengið fullnaðardóma og hljóðaði sá stysti upp á tvö ár og sá lengsti 20 ár. Þrír hafa bæst í hópinn á þessu ári, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins. Þeir eru allir í gæsluvarðhaldi og sitja í Búlgaríu, Hollandi og Brasilíu. Einn er á þrítugsaldri, annar á fertugsaldri og sá þriðji á fimmtugsaldri. Enginn þeirra hefur hlotið fullnaðardóm.
Mál Íslendinga sem brjóta af sér í útlöndum eru leidd til lykta þar. Leiði afbrot til fangelsisdóms kemur til greina að íslenskur ríkisborgari fái að afplána hér. Ísland er aðili að samningi Norðurlandanna um fullnustu refsidóma og einnig að Evrópusamningum um flutning dæmdra manna. Það skiptir máli varðandi framsal og gang málsins í hvaða landi fanginn var dæmdur. Lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma heimila einnig samninga við einstök ríki um fullnustu refsinga.
Íslenskur fangi getur óskað eftir því að fá að afplána dóm sinn hér og einnig getur ríkið sem hann afplánar í lagt fram slíka beiðni. Beiðnirnar fara til dómsmálaráðuneytisins sem afgreiðir þær samkvæmt gildandi samningum og lögum.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra sagði flest mál um framsal fanga snúa að Norðurlöndunum. Mun færri mál komi upp vegna fullnustu dóma í öðrum ríkjum. Samþykki Ísland að taka við fanga frá öðru landi þarf að tryggja fanganum pláss í fangelsi hér og það getur tekið tíma.
Ragna benti á að færi refsing vegna afbrots í öðru landi fram úr þeirri hámarksrefsingu sem kveðið er á um í íslenskum lögum vegna hliðstæðs brots myndu íslensk yfirvöld gera það að skilyrði fyrir framsali að fá að draga úr refsingunni að hámarksrefsingu hér.
„Það má ekki vekja falsvonir um að það sé hægt að draga úr dómum. Það er bara hægt í þeim tilvikum sem ríki eru með refsirammann á skjön við það sem gerist hér,“ sagði Ragna. Um fanga sem hefur verið framseldur hingað gilda íslenskar reglur um reynslulausn. Lönd sem semja um gagnkvæmt framsal fanga þurfa því að sætta sig hvert við annars fullnustukerfi.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.