Það var vetrarlegt víða á Norðurlandi í morgunsárið og jörð orðin alhvít á ný þegar fólk reis úr rekkju. Áfram er spáð norðlægum áttum um helgina.
Við bændum í innanverðum Eyjafirði blasti fannhvít jörð í morgun eins og mynd Benjamíns Baldurssonar, bónda að Ytri-Tjörnum sýnir.
Á Akureyri var heldur kuldalegt um að litast í morgun, hvítt yfir og hiti skreið yfir frostmarkið.
Vorhretið mun þó ekki standa lengi. Upp úr helginni taka við suðlægari áttir og fer veður þá aftur hlýnandi.
Veðurspá næsta sólarhring: Norðan og norðvestan 13-18 m/s, en sums staðar hvassari úti við ströndina og í vindstrengjum sunnan fjalla. Slydda eða snjókoma með köflum á N-verðu landinu, en bjart með köflum syðra. Hætt við skúrum SA-lands síðdegis. Dregur smám saman úr vindi S- og V-lands og léttir til í nótt og á morgun. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig, en allt að 12 stigum syðst.
Veðurspá fyrir laugardag: Norðvestan 8-13 m/s, en 13-18 úti við NA-ströndina. Dálítil snjókoma eða él á N- og A-landi, en annars bjartviðri. Lægir seinni partinn, en snýst í suðvestanátt og fer að rigna V-lands um kvöldið. Vægt frost NA-lands, en hiti annars 0 til 5 stig.
Veðurspá fyrir sunnudag: Suðvestan 8-13 m/s og rigning á V-verðu landinu, en þurrt að kalla eystra. Hvessir V-lands um kvöldið. Hlýnandi veður.