Funduðu ekki með ráðherra

Fulltrúar mótmælenda koma á fund ráðherra í Stjórnarráðinu í dag.
Fulltrúar mótmælenda koma á fund ráðherra í Stjórnarráðinu í dag. mbl.is/Golli

Hagsmunasamtök heimilanna segja, vegna orða forsætisráðherra í dag, að enginn talsmaður samtakanna, eða aðili með umboð samtakanna, hafi verið á fundi fulltrúa Nýrra tíma með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni í dag.

„Vilji þau ræða við Hagsmunasamtökin þá verður það ekki í gegnum mótmælaaðgerðir eins og í dag, heldur á fyrirfram skipulögðum fundi.  Hagsmunasamtökin hafa lagt sig fram um fagleg og vel undirbúin vinnubrögð.  Kaffiboð með nokkurra mínútna fyrirvara fellur ekki undir það,“ segir í tilkynningu.

„Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna er tilbúin að hitta forsætisráðherra og fjármálaráðherra hvenær sem er.  Við höfum þegar átt fund með mörgum aðilum, m.a. ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, og eigum fulltrúa í undirnefnd Velferðarvaktarinnar.  Viljum við því koma þeim skilaboðum til forsætisráðherra og fjármálaráðherra að nefna þann tíma sem þeim hentar að hitta okkur og við munum ekki láta bíða eftir okkur.

Við hörmum að forsætisráðherra hafi þann skilning að fulltrúar Nýrra tíma hafi verið talsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna,“ segir ennfremur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert