Fréttaskýring: Horfa grímulaust á eignirnar brenna upp

Stjórnvöld horfa grímulaust upp á eignir húsnæðislántakenda brenna upp, fullyrðir Björn Þorri Viktorsson, lögmaður. Hann berst nú fyrir því að lántakendur fái lán sín leiðrétt þar sem forsendur samninga þeirra sé brostinn.

„Stjórnvöld eru að reyna að svæfa og slæva fólk með því að segja að það skipti engu máli hvort það borgi allt sem það geti í þrjátíu ár eða sjötíu. Farið er fram á að fólk takist á hendur skuldbindingar sem það aldrei samþykkti; allt aðrar forsendur, allt aðrar aðstæður, allt önnur greiðslubyrði og allt annar lánstími og stjórnvöld tala eins og ekkert sé sjálfsagðara. Á sama tíma eru þessi sömu stjórnvöld að fá þessi sömu lán til sín á spottprís af því að augljóst er að skuldararnir geta ekki borgað.“

Umræðan um niðurfellingu skulda hefur magnast eftir að talsmaður neytenda birti tillögu sína um að sett verði neyðarlög í þágu neytenda þar sem kveðið verði á um eignarnám íbúðarveðlána til neytenda og niðurfærslu þeirra eftir mati gerðardóms. Baráttan snýst um hver eigi að bera tjónið af bankahruninu og verðbólgunni í samfélaginu og kastljósinu hér beint að þeim sem telja að leiðrétta þurfi stöðu lántakenda.

Þjóðin klofni við gjaldþrotin

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur líkt og Björn Þorri að leiðrétta þurfi lánin vegna forsendubrests. Hann telur raunhæft að sýn Björns Þorra um andfélagslegu borgarana verði að veruleika án aðgerða.

„Vonleysið verður sífellt meira sem og þrýstingurinn á að eitthvað verði gert fyrir hinn almenna skuldara.“ Þær hugmyndir að fólk fari í greiðsluverkfall lýsi því að greiðsluviljinn sé að hverfa.

Tryggvi er sammála Framsóknarflokknum að fella 20% af lánunum niður. Tækifærið til leiðréttingar sé einstakt núna. Ljóst sé þó að niðurfellingin gagnist ekki öllum. „Þá skulum við vera með önnur úrræði eins og 50% leiðina; að fólk greiði 50% af skuldbindingum sínum í þrjú ár.“

Hópar standi ekki jafnt

Tryggvi Þór Herbertsson (t.v) hagfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokks tekur undir með Birni Þorra Viktorssyni (t.h.) lögmanni að ekki hafi verið tekið jafnt á málum manna. „Ljóst er að þær aðgerðir sem búið er að fara út í ganga ekki jafnt yfir alla hópa. Það er búið að tryggja sparifjáreigendur að þeir muni ekki tapa innstæðum. Þá var komið til móts þá sem áttu í peningamarkaðssjóðunum. En raunverulega er ekkert búið að gera fyrir þá sem skulduðu nema að bjóða þeim upp á það úrræði að lengja og teygja í lánum, nema þeir fari í greiðsluaðlögun.“

Björn Þorri vill meina að með ákvörðunum sem þegar hafi verið teknar, að bæta skaða fjármagnseigenda, sé minna til skiptana fyrir aðra, því ríkið hafi ekki úr endalausu fjármagni að spila. Jafnræðisreglan hafi verið brotin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert