Deila um klósett hefur orðið til þess að ekki hefur verið hægt að búa í ósamþykktri kjallaraíbúð við Bergþórugötu í eitt og hálft ár. Íbúar á efri hæðum hússins vildu loka klósettinu sem er í sameign en töpuðu málinu fyrir úrskurðarnefnd fjöleignarhúsa. Nú er deilt um sturtuaðstöðu. Sigurbjörn Svanbergsson sem situr í stjórn húsfélagsins segir að síðasti leigjandi hafi farið daglega í sturtu og við það hafi gosið upp fúkkalykt og annar óþefur sem hafi verið öllum til ama. Þá hafi ekki verið pláss til að þurrka sér og hann því skotist nakinn í gegnum sameignina.
Klósettið er nú í niðurníðslu og eigendur íbúða á efri hæðum vilja ekki leggja til fé til að gera það upp.
Leó Ólason eigandi kjallaraíbúðarinnar íhugar að fara með málið fyrir dómstóla. Íbúarnir hafa boðist til að borga hluta af kostnaði við að flytja salernisaðstöðu inn í íbúðina enn eigandinn hefur ekki fallist á það.
Eigandi kjallarans og talsmaður húsfélagsins eru ekki sammála um hvort þetta sé dæmi um undarleg fasteignaviðskipti sem blómstruðu í góðærinu meðan eftirspurn eftir íbúðum í miðbænum var mikil. Sjá mbl sjónvarp.