Krefjast harðra mótmæla frá íslenskum stjórnvöldum

Ein af myndunum sem prýðir vefinn indefence.is.
Ein af myndunum sem prýðir vefinn indefence.is. mbl.is

Indefence hópurinn krefst þess að íslensk stjórnvöld komi hörðum mótmælum á framfæri opinberlega beint til forsætisráðherra Bretlands og til allra helstu fjölmiðla Bretlands.

Vísar hópurinn til ummæla Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, í fyrirspurnartíma í neðri deild breska þingsins fyrir tveimur dögum síðan er hann var spurður um afdrif 6,5 milljón punda innstæðu krabbameinssjóðs Christie's sjúkrahússins í Manchester í Kaupþing Singer og Friedlander (KSF).

Í svari forsætisráðherrans kom fram alvarleg rangfærsla þegar hann hélt því fram að hér væri við íslensk yfirvöld að sakast og þau ættu að endurgreiða þessa upphæð, þar sem reikningurinn hafi verið á ábyrgð íslenska fjármálaeftirlitsins.

Hið rétta er að KSF var breskur banki sem starfaði undir eftirliti breskra fjármálayfirvalda. Þann 8. október 2008 tók breska fjármálaeftirlitið (FSA) yfir stjórn KSF og bera því bresk yfirvöld alla ábyrgð á innstæðum í bankanum eftir þann tíma. Einnig upplýsti Gordon Brown að bresk stjórnvöld hefðu verið í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) um uppgjör Íslendinga á innistæðum Icesave reikninganna, en slíkar viðræður eru ólögmætar, enda langt fyrir utan starfssvið AGS að hafa áhrif á tvíhliðasamninga Íslendinga og Breta í þessu máli," að því er segir í tilkynningu frá Indefence hópnum.

Tekið eigur Íslendinga traustataki í krafti hryðjuverkalaga

Ólafur Elíasson, tónlistarmaður sem er einn forsvarsmanna Indepence hópsins, segir að ummæli forsætisráðherra Bretlands nú séu ekkert annað en ósannindi í garð Íslendinga og hljóti að vekja íslenskan almenning til umhugsunar um fyrri aðgerðir Breta gagnvart Íslendingum.

„Bretar hafa stundað gríðarlega grimma hagsmunagæslu gagnvart okkar þjóð. Þeir hafa tekið eigur okkar traustataki í krafti hryðjuverkalaga. Forsætisráðherra Bretlands og aðrir ráðherrar í bresku ríkisstjórninni hefur borið út óhróður um íslenska þjóð í breskum og alþjóðlegum fjölmiðlum og með þessum ummælum nú kemur í ljós, eins og marga hefur grunað, að bresk stjórnvöld hafa beitt sinni öflugu diplómatísku vél af gríðarlegri hörku gegn íslenskum hagsmunum," segir Ólafur.

Íslendingar verða að ná vopnum sínum

Hann segir að svo virðist sem bresk stjórnvöld líti á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem innheimtufyrirtæki fyrir þeirra hönd. „Á einhverjum tímapunkti verðum við Íslendingar að ná vopnum okkar og vinna að hagsmunum landsins,"segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Indefence hópurinn skorar á íslensk stjórnvöld að bregðast strax við þessu nýjasta útspili Gordon Browns, sem í annað skipti á sjö mánuðum hefur notað Íslendinga sem boxpúða í spunastríði um vinsældir heima fyrir, að því er segir í tilkynningu.

„Aftur hefur hann vegið að heiðri og brothættri ímynd Íslendinga á alþjóðavettvangi með því að fullyrða nú að íslensk yfirvöld neiti að standa við skuldbindingar sínar við góðgerðasamtök sem reka Christie's spítalann fyrir krabbameinssjúklinga í Manchester í stað þess að gangast við eigin ábyrgð.

Indefence hópurinn krefst þess að íslensk stjórnvöld komi hörðum mótmælum á framfæri opinberlega beint til forsætisráðherra Bretlands og til allra helstu fjölmiðla Bretlands. Það verður að krefjast þess að Gordon Brown leiðrétti og biðjist afsökunar á fullyrðingum sínum um ábyrgð íslenskra stjórnvalda á innistæðum Christies spítalanum.

Enn fremur verða íslensk stjórnvöld að fara fram á að Brown veiti frekari upplýsingar um óeðlilegar og ólögmætar samningaviðræður Breta við AGS um uppgjör á Icesave málinu.

Nú kann að vera að íslensk stjórnvöld átti sig ekki á því hvers vegna slík mótmæli eru nauðsynleg. Við munum því útskýra það til öryggis. Hér er ekki bara um að ræða sært stolt þjóðar sem orðið hefur fyrir alvarlegu efnahagshruni.

Íslensk stjórnvöld eiga í samningaviðræðum bæði við bresk stjórnvöld um Icesave málið og AGS um viðreisn á efnahagi þjóðarinnar. Í báðum tilfellum hefur mótherjinn haft mjög sterka samningsstöðu gagnvart Íslendingum og rökstuddur grunur hefur áður komið fram um að Bretar hafi bak við tjöldin styrkt samningstöðu sína með því að tefja afgreiðslu AGS á lánum til Íslands.

Sterk samningsstaða Breta gagnvart Íslendingum byggir ekki síst á þeirri útbreiddu túlkun að þeir séu brotaþolar en Íslendingar fjárglæframenn sem ekki vilja gera upp skuldir sínar. Bakland og samningsstaða breskra stjórnvalda mun óhjákvæmilega veikjast ef umheimurinn áttar sig á því að Gordon Brown geri ekki greinarmun á eigin skuldum og skuldum Íslendinga og hafi annað hvort viljandi eða í fávísi farið með rangt mál um það á breska þinginu.

Ef fullyrðingar Gordon Brown um ólögmætar samningaviðræður breskra stjórnvalda við AGS um uppgjör á Icesave reikningum verða staðfestar mun samningsstaða beggja aðila gagnvart Íslendingum versna til muna. Ef fullyrðingarnar reynast rangar þá minnkar trúverðugleiki og bakland Gordon Browns, sem veikir um leið samningsstöðu Breta.

Verri samningsstaða breskra stjórnvalda og AGS þýðir betri samningsstöðu fyrir Ísland og það skiptir öllu máli fyrir okkur að ná hagstæðum samningum við þessa aðila.

Eftir fyrstu spunaherferð breskra stjórnvalda gegn Íslendingum þann 8. október, þegar þeir beittu Íslendingum m.a. hryðjuverkalögum, lýsti þáverandi forsætisráðherra Íslands því yfir að hann vildi ekki munnhöggvast við Gordon Brown.

Jóhanna, Steingrímur, Össur og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þið hljótið að gera ykkur grein fyrir því að nú er kominn tími til að munnhöggvast við Gordon Brown. Sýnið þor og djörfung og gangið fram vasklega til að bæta samningsstöðu Íslendinga gagnvart breskum stjórnvöldum og AGS," segir ennfremur í tilkynningu frá Indefence hópnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert