Samtök atvinnulífsins skora á Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna - grænt framboð að hverfa frá öllum hugmyndum um upptöku og uppboð aflaheimilda sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.
„Það er mikilvægt að stöðugleiki ríki í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja eins og annarra fyrirtækja. Á þeim erfiðu tímum sem í hönd fara er samvinna og samstarf stjórnvalda og atvinnulífsins nauðsynlegt.
Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til þess að eiga gott samstarf við nýja ríkisstjórn en þær aðferðir sem kynntar hafa verið gagnvart sjávarútvegi og afleiðingar þeirra tefla óhjákvæmilega slíku samstarfi í tvísýnu," að því er segir í yfirlýsingu SA.