Ummælum Browns mótmælt

Gordon Brown
Gordon Brown REUTERS

Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra í Lundúnum, ræddi í dag við utanríkismálaráðgjafa Gordon Brown og afhenti honum bréf þar sem ummælum Browns er mótmælt. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, átti einnig fund með fulltrúa sendiherra Bretlands á Íslandi og mótmælti yfirlýsingum Browns. 

Össur sagði eftir fundinn að hann hefði getið þess við fulltrúa sendiherrans að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Brown tæki svona til orða, og að það hafi verið rangt það sem hann sagði um ábyrgð Íslendinga á Kaupþing Singer & Friedlander. „Sömuleiðis höfum við komið þessum upplýsingum á framfæri við þann ágæta þingmann íhaldsmanna í breska þinginu sem bar upp fyrirspurnina til Gordon Brown,“ sagði Össur.

Össur sagði einnig að samkvæmt upplýsingum sem fengist hefðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu engar viðræður verið á milli sjóðsins og breskra stjórnvalda vegna Icesave-deilunnar. Engu að síður mun ríkisstjórnin ganga eftir því að það komi tvímælalaus yfirlýsing frá sjóðnum að slíkar viðræður hafi ekki átt sér stað.

Össur var nokkuð vongóður um að svör fengjust frá breskum stjórnvöldum í dag. „Mér var tjáð það, en þó ekki á fundinum áðan, að það myndu koma skýringar á orðum [Browns] og ég réð af því samtali að þær myndu koma í dag. En ég fékk það ekki staðfest á fundinum áðan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka