Útlendingar snúa aftur til Íslands

Útlendingar í Alþjóðahúsinu í Reykjavík
Útlendingar í Alþjóðahúsinu í Reykjavík mbl.is/Árni Sæberg

Mörg dæmi eru um það, að erlendir ríkisborgarar sem misstu vinnuna í haust og fóru til heimalandsins, hafi snúið aftur til Íslands. Ástæðan er sú að atvinnuleysisbætur eru miklu hærri hér á landi en í heimalandinu. Þetta staðfestir Þóra Ágústsdóttir, sem stýrir Eures-skrifstofu Vinnumálastofnunar í Borgartúni 7. Skrifstofan annast atvinnumál útlendinga.

Í marsmánuði voru 2.146 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá. Þar af voru Pólverjar langfjölmennastir, eða 1.397. Eru Pólverjar 65% allra erlendra ríkisborgara á skrá. Litháar eru næstfjölmennastir.

Tveir pólskumælandi starfsmenn vinna á skrifstofunni í Borgartúni og annast þeir að langmestu leyti málefni samlanda sinna. Til þeirra hafa komið Pólverjar, sem misstu vinnuna í haust. Umræddir einstaklingar fóru heim án þess að sækja um bætur. Nú er þetta fólk að snúa aftur hingað til að sækja um bætur. Atvinnuleysisbætur eru tæpar 150 þúsund krónur hér á landi en um 15 þúsund krónur í Póllandi. Fólkið sem snýr aftur segir að ekki sé mögulegt að lifa á bótunum í Póllandi. Það komist betur af hérlendis.

Þóra segir að þeir útlendingar, sem nú eru að snúa til heimalandsins, kynni sér mjög vel hver réttindi þeirra eru. Þetta fólk muni hugsanlega snúa aftur til Íslands. „Þetta snýst einfaldlega um það hvar skást er að vera til þess að komast af,“ segir Þóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka