Aðgerðirnar eru taldar duga flestum

Þau greiðsluvandaúrræði sem boðið er upp á, þ.e. greiðslujöfnun, frysting lána, hækkun vaxtabóta, útgreiðsla séreignarlífeyrissparnaðar og fleira, ættu að duga flestum til að komast yfir erfiðasta hjallann, að mati Hrannars B. Arnarssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra.

„Greiðslubyrði lána fólks sem fer í gegnum þessar aðgerðir ætti í flestum tilvikum að verða svipuð eða jafnvel minni en fyrir bankahrunið síðastliðið haust. Þeir sem réðu við greiðslubyrðina þá ættu því að ráða við hana eftir þessar aðgerðir. Hafi tekjur hins vegar breyst mikið horfa málin öðruvísi við og þá gæti fleira þurft að koma til, þar á meðal hugsanlega greiðsluaðlögun,“ segir Hrannar.

Úrræðin ekki þekkt

Töluvert hefur verið kallað eftir aðgerðum stjórnvalda til handa skuldsettum heimilum allt frá bankahruninu síðastliðið haust. Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa hins vegar svarað því að mikið beri á að fólk þekki ekki hvaða úrræði eru í boði vegna skuldavandans. Vegna þessa töldu formennirnir í síðustu viku ástæðu til að benda sérstaklega á 15 atriði sem máli skipta fyrir skuldsett heimili.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í þágu skuldsettra heimila miða að stærstum hluta að því að gera heimilunum kleift að halda út þangað til aðstæður í þjóðfélaginu lagast. Ýmsir hafa hins vegar viljað sjá frekari aðgerðir. Þar á meðal eru Neytendasamtökin. Stjórn samtakanna segir í ályktun sem hún sendi frá sér fyrir helgi að ástæða sé til að skipta þeim byrðum sem rekja má til bankahrunsins jafnar á landsmenn. Þrátt fyrir það telja Neytendasamtökin að öll þau úrræði sem komið hafa fram undanfarna mánuði til aðstoðar skuldsettum heimilum opni lántakendum húsnæðislána leiðir til að standa í skilum og ná stöðugleika á ný.

Ítarlega er fjallað um greiðsluvandaúrræði í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert