Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ánægður með það sem kemur fram í yfirlýsingu frá breska forsætisráðuneytinu sem send var út í gærkvöldi. Þar er viðurkennd ábyrgð breska fjármálaráðuneytisins á Kaupthing Singer and Friedlander-bankanum auk þess sem fram kemur stuðningur við samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann segir þann stuðning koma á góðum tíma.
Össur bar í gær fram formlega kvörtun vegna ummæla Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, í fyrirspurnatíma breska þingsins. Össur kallaði á fund sinn Emmu Davis, staðgengil sendiherra Breta á Íslandi. Fundur þeirra var stuttur og eftir hann sagði Össur að Davis hefði samviskusamlega tekið niður ummæli sín og sagst ætla að koma þeim á framfæri. „Ég mótmælti með hreinskiptnum hætti þessum yfirlýsingum Browns og gat þess að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hann tæki svona til orða um Íslendinga.“
Brown lýsti því m.a. yfir í fyrirspurnatímanum að bresk yfirvöld ættu í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) um hversu hratt Íslendingar endurgreiddu lán vegna greiðslna til breskra innistæðueigenda. Össur sagði að ríkisstjórnin myndi ganga á eftir því að fá tvímælalausa yfirlýsingu frá IMF um að slíkar viðræður hefðu ekki átt sér stað.