Bæjarráð Hornafjarðar varar við fyrningarleið

mbl.is

Bæjarráð Hornafjarðar varar eindregið við öllum ákvörðunum sem skaðað geta sjávarbyggðir landsins og leggur áherslu á að ekki verði ráðist í illa ígrundaðar ákvarðanir um breytingar á stjórnun fiskveiða. Óvissa og átök um þessa undirstöðuatvinnugrein margra byggðalaga á landsbyggðinni sem og þjóðarinnar í heild þjóni engum tilgangi á þessum tímapunkti.

Hornafjarðarbær er enn eitt bæjarfélagið sem ályktar harðlega gegn hugmyndum um fyrningarleið eða innköllun veiðiheimilda, sem báðir stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir. Fjölmörg sveitarfélög og samtök hafa varað við boðaðri fyrningarleið.

Í bókun bæjarráðs Hornafjarðar um sjávarútvegsmál frá í gær segir að atvinnulíf Íslendinga gangi í gegnum mikla erfiðleika nú um stundir. Rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu sé háð mikilli óvissu og þar sé sjávarútvegurinn sannarlega engin undantekning. Óstöðugur gjaldmiðill, háir vextir, vanmáttugt bankakerfi og erfið skuldastaða geri öllum atvinnurekstri á Íslandi erfitt um vik. Auk þessara óvissuþátta verði fyrirtæki í sjávarútvegi að glíma við sveiflur í lífríki hafsins og ekki síst aðstæður á mörkuðum erlendis.

Áföll í sjávarútvegi auk ástands á mörkuðum ógni störfum sjómanna og fiskvinnslufólks. Við þessar aðstæður hljóti allar aðgerðir stjórnvalda að miða að því að minnka óvissuna í rekstrarumhverfi  fyrirtækja og treysta grundvöll þeirra til framtíðar.

„Á Hornafirði er sjávarútvegur grundvöllur byggðar og styrkur útgerðarinnar felst í fjölbreytileika veiða og vinnslu. Óhætt er að fullyrða að á Höfn eru bein störf í sjávarútvegi fleiri en 250 í plássi sem telur ríflega 1600 íbúa. Öllum má því vera ljóst að ef hriktir í stoðum sjávarútvegarins, þá hefur það róttæk áhrif á alla samfélagsgerð á Höfn. Ef kjölfestan er löskuð þá er til lítils að tala um þróun, nýsköpun og nýjar atvinnugreinar,“ segir í bókun bæjarráðs Hornafjarðar.

Ennfremur segir að vegna mikilvægis sjávarútvegs fyrir einstakar byggðir og þjóðarbúið í heild sinni sé mikilvægt að unnið verði að varanlegri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ekki sé ásættanlegt að þessi grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sé í uppnámi fyrir hverjar kosningar. Að slíkri sátt verði allir hagsmunaðilar að koma með stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka